Óvíst hvort hræið verði flutt

Það var bílstjóri frá ferðaþjónustufyrirtækinu Mountain Taxi sem kom fyrst …
Það var bílstjóri frá ferðaþjónustufyrirtækinu Mountain Taxi sem kom fyrst að hræinu í fyrradag. Photo: Benedikt Þ. Gröndal

Enn er ekki komið í ljós hver næstu skref verða varðandi búrhvalhræið sem liggur nú í sandinum undan Eyjafjöllum. Óvíst er hvort reynt verði að flytja hræið á brott, en lögregla og ábúendur á næsta bæ segja ekki ljóst hvort það muni valda neinum óþægindum, jafnvel þótt alltaf sé sóðaskapur af hvölum sem hafa rekið á land.

Hvalurinn er í landi Ytri-Skóga og þar af leiðandi á Skógasandi, en ekki Sólheimasandi eins og greint var frá í gær. Ingimundur Vilhjálmsson, bóndi á Ytri-Skógum, fór niður í fjöru í gær og skoðaði vettvanginn. Segir hann að ekki sé víst að hann sé nýrekinn, heldur gæti hann hafa verið þar í nokkra daga.

Tennurnar voru teknar úr dýrinu í gær, en Ingimundur segir að þær hafi verið orðnar mjög slitnar. Eiginlega hafi bara verið um hnúða upp úr gómnum að ræða. Sagði hann það mögulega benda til þess að um gamalt dýr væri að ræða.

Hræið er um 5-6 kílómetra frá íbúðahúsunum að Ytri-Skógum, en Ingimundur segir umferð um svæðið þó vera talsverða. Þar sé helst um að ræða ferðaþjónustufyrirtæki sem fari í jeppaferðir með ferðamenn eftir sandinum. Þá liggi í dag braut þangað niður eftir, en hann segir að búið sé að gera slíkar víða um sandinn.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli er óvíst að nokkuð ónæði verði af dýrinu, en búið er að hafa samband við viðeigandi stofnanir vegna málsins. Til eru opinberar verklagsreglur þegar kemur að hvalreka og ber að tilkynna Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun, Hafrannsóknarstofnun, Embætti yfirdýralæknis og heilbrigðiseftirliti á staðnum um málið. Nú sé verið að meta hvort leyfa eigi hræinu að grotna niður eða fjarlægja það af staðnum.

Frétt mbl.is: Búrhval rak á landi á Sólheimasandi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert