Bandaríska ferðaþjónustufyrirtækið Eleven Experience stefnir að því að opna næsta vor lúxusgistihús á Deplum í Fljótum í Skagafirði.
Tugir iðnaðarmanna hafa verið þar að störfum síðustu vikur og mánuði og er gistihúsið farið að taka á sig mynd að utan. Þar verða 11 herbergi og ýmis þægindi í boði, m.a. úti- og innisundlaug, gufubað, heitir pottar, nuddpottar og vínkjallari.
Samkvæmt verðskrá fyrirtækisins kostar sex daga dvöl á Deplum um 2 milljónir kr. á mann að vetri til. Innifalið er gisting, matur og drykkir, þyrluflug, skíðaferðir o.fl., að því er fram kemur í umfjöllun um umsvif fjárfesta í Fljótum í Morgunblaðinu í dag.