Þrír voru fluttir á sjúkrahús eftir bílveltu á Biskupstungavegi í morgun. Bíllinn rann til í hálku og valt. Eldri kona, annar farþegi bílsins, var flutt á sjúkrahús í Reykjavík eftir skoðun á Selfossi en grunur leikur á að hún hafi rifbeinsbrotnað. Í bílnum var einnig karlmaður og ársgömul stúlka en þau sluppu betur.
Þá valt bíll á Suðurlandsvegi við skíðaskálann í Hveradölum á níunda tímanum í morgun, einnig vegna hálku. Enginn var fluttur á slysadeild. Bíll hafnaði utan vegar í Þrengslunum um svipað leyti en kom ökumaðurinn sér sjálfur heim.
Ökumaðurinn missti stjórn á bifreiðinni vegna hálku á veginum. Að auki var bíl ekið utan í vegrið í brekkunni við skíðaskálann en það var einnig vegna hálku á veginum.
Allt voru þetta mál sem komu til kasta lögreglunnar á Suðurlandi í morgun vegna hálku.
Ekið var á ungan vegfaranda við Sunnulækjarskóla á Selfossi í morgun. Ökumaður bílsins var að taka af stað þegar barnið kom á nokkurri ferð á hjóli út á götu. Barnið slasaðist ekki.