Hvað er auðlind?

Íslendingar eiga hlutdeild í auðlindum mannkyns alls, svo sem auðlindum …
Íslendingar eiga hlutdeild í auðlindum mannkyns alls, svo sem auðlindum úthafsins, sólarljósinu og andrúmsloftinu, sem viðtakendur. mbl.is/Eggert

Fjórir þingmenn Framsóknarflokksins vilja fela um­hverfis- og auðlindaráðherra til að fá það skilgreint hvað sé auðlind.

Flutningsmenn þingsályktunartillögu um skilgreiningu auðlinda, sem hefur verið lögð fram á Alþingi, eru þau Vigdís Hauksdóttir, Þórunn Egilsdóttir, Karl Garðarsson og Jóhanna María Sigmundsdóttir. Tillaga sama efnis hefur áður verið lögð fram, eða á 139., 140., 141. og 143. löggjafarþingi.

Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela um­hverfis- og auðlindaráðherra að fá sérfræðinga á sviði auðlindaréttar, um­hverfisfræða og um­hverfisréttar til að semja frumvarp sem skilgreinir hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru. Frumvarpið verði lagt fram á 146. löggjafarþingi.“

Í greinargerð með tillögunni segir, að með tillögunni sé lagt til að um­hverfis- og auðlindaráðherra verði falið að fá sérfræðinga, svo sem á sviði auðlindaréttar, um­hverfisfræða og um­hverfisréttar, til að semja frumvarp sem skilgreinir hvað flokkist til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands séu. Með tillögunni sé um­hverfis- og auðlindaráðherra því falið að velja sérfræðinga til starfans en mikilvægt sé að þeir hafi mikla þekkingu á þessu sviði, geti unnið saman að gerð frumvarps um efnið og nái að ljúka þeirri vinnu fyrir lok 145. löggjafarþings. Með tillögunni sé einnig lagt til að frumvarpið verði lagt fram helst í upphafi 146. löggjafarþings.

Auðlindir ná til takmarkaðra gæða

Bent er á, að hugtakið auðlind sé víðfeðmt og nái til margra þátta samfélagsins. Talið sé að allir þættir náttúrunnar, jörðin, lífríkið, vatn, sólarljós og loft geti talist til náttúruauðlinda. Auðlindir geti verið skilgreindar sem þjóðareign, svo sem fiskstofnar. Afskipti ríkisins nái samt til margra annarra auðlinda en þeirra sem beinlínis séu taldar þjóðareign.

„Íslendingar eiga hlutdeild í auðlindum mannkyns alls, svo sem auðlindum úthafsins, sólarljósinu og andrúmsloftinu, sem viðtakendur. Oft er forsjá slíkra auðlinda skilgreind á grundvelli alþjóðasamninga þar sem réttindi og skyldur einstakra ríkja eru skilgreind. Því falla þessar auðlindir undir þjóðarforsjá. Með nokkurri einföldun má segja að auðlindahugtakið nái til hvers konar gæða sem eru takmörkuð,“ segir ennfremur.

Auðlindir geta verið skilgreindar sem þjóðareign, svo sem fiskstofnar.
Auðlindir geta verið skilgreindar sem þjóðareign, svo sem fiskstofnar. mbl.is/Eggert

Afnotaréttur verði bæði framseljanlegur og varanlegur

Þá segir, að verulega hafi gengið á fjölmargar náttúruauðlindir undanfarna áratugi og svo mikið að nú sé tilfinnanlegur skortur á mörgum mikilvægum auðlindum, eins og vatni og öðrum um­hverfisgæðum af ýmsu tagi. Því hafi þjóðir heims kappkostað að finna og þróa leiðir til að nýta náttúruauðlindir með hagkvæmum hætti og beinist athyglin aðallega að hagrænum stjórntækjum sem takmarki ekki nýtingu á náttúruauðlindum, heldur hagi nýtingu þannig að hún sé ábatasöm fyrir viðkomandi og heildarhag allra.

Bent hefur verið á að erfiðara sé að stjórna auðlindum sem frjáls aðgangur er að af því að þá er ekki um að ræða umráðarétt einstakra aðila yfir þeim. Margir hagfræðingar hafa haldið því fram að í mörgum tilvikum sé hægt að leysa þennan vanda með því að breyta sameign í einkaeign, eða með því að úthluta afnotarétti/kvótum til tiltekinna einstaklinga eða fyrirtækja. Þá hafa verið sett fram sjónarmið um að afnotarétturinn sé bæði framseljanlegur og varanlegur,“ segir í tillögunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert