Landflótta rithöfundur fær skjól í Reykjavík

Orlando Luis Pardo Lazo
Orlando Luis Pardo Lazo Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg hefur nú tekið á móti landflótta rithöfundi frá Kúbu og veitir honum skjólborg þar sem honum er tryggður öruggur dvalarstaður og efnahagslegt öryggi, að því er fram  kemur í frétt frá Reykjavíkurborg. 

Reykjavíkurborg gerðist aðili að ICORN (International Cities of Refuge Network) árið 2010. ICORN eru samtök borga víðs vegar um heim sem gerst hafa skjólborgir rithöfunda sem ekki er gert kleift að búa í heimalandi sínu. Þetta er annar rithöfundurinn sem Reykjavíkurborg tekur á móti. Árið 2011 skaut borgin skjólhúsi yfir palestínska rithöfundinn Mazen Ma­arouf.

Rithöfundurinn heitir Orlando Luis Pardo Lazo, fæddur 1971 á Kúbu. Lazo útskrifaðist sem lífefnafræðingur frá Háskólanum í Havana árið 1994 og starfaði sem sameinda líffræðingur í Miðstöð erfðatækni- og líftæknirannsókna (1994-1999), þar til hann var rekinn af pólitískum ástæðum.  Hann er rithöfundur, blaðamaður, bloggari, ritstjóri, ljósmyndari og félagslegur aktívisti.

Hann er vefstjóri „Boring Home Utopics“ og heldur úti bloggsíðunni „Lunes de eftir Revolución“. Í heimalandi sínu Kúbu ritstýrði hann sjálfstæðu stafrænu tímaritunum, Cacharro (s), The Revolution  Evening Post, og Voces.

Í frétt Reykjavíkurborgar segir að árið 2013 varð hann að yfirgefa land sitt og síðan þá hefur hann haldið fyrirlestra í mörgum bandarískum háskólum um félagslegar aðgerðir á Kúbu, um borgaralegt samfélag og ritskoðun bókmennta af hálfu kúbverska ríkisins. 2014-2015 var hann félagi í International Writer Project við Brown Háskóla í Bandaríkjunum, þar sem hann var einnig aðjúnkt í ritlist í rómönskum fræðum.

Lazo ritaði bókina Boring Home sem hlaut tékknesku bókmenntaverðlaunin 2014 og skrifaði og ritstýrði smásagnasafninu Cuba in Splinters; Eleven Stories from the New Cuba.

Mannréttindaskrifstofa mun halda utan um verkefnið líkt og áður ásamt starfshópi skipuðum af borgarstjóra í júní 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert