Prestar megi ekki mismuna

Spurt var um hvort prestar þjóðkirkjunnar mættu mismuna fólki eftir …
Spurt var um hvort prestar þjóðkirkjunnar mættu mismuna fólki eftir kynhneigð vegna trúar sinnar. mbl.is/Eggert

Innanríkisráðuneytið hefur ekki fengið neinar ábendingar um að prestar þjóðkirkjunnar hafi neitað samkynja pörum um þjónustu á grundvelli meints samviskufrelsis þeirra. Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, telur presta ekki mega mismuna á grundvelli kynhneigðar frekar en aðrir opinberir embættismenn.

Í svari við skriflegri fyrirspurn sem Andrés Ingi Jónsson, varaþingmaður Vinstri grænna, lagði fram í sumar, kemur fram að ráðuneytið hafi ekki fengið formlegar tilkynningar eða ábendingar um að samkynja pörum hafi verið synjað um þjónustu starfsmanna þjóðkirkjunnar á þessum grundvelli. Samkvæmt upplýsingu Biskupsstofu gildi engar reglur innan þjóðkirkjunnar um „samviskufrelsi“ presta sem heimili þeim að neita fólki um þjónustu vegna kynhneigðar.

Einnig kemur fram að sem opinberir starfsmenn megi prestar ekki mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar. Samkvæmt ákvæðum hjúskaparlaga geti prestur hins vegar synjað því að framkvæma hjónavígslu og að ráðuneytið leiti að jafnaði álits biskups fái það mál til úrlausnar. Sömuleiðis sé ráðherra ætlað að leita eftir tillögum biskups við setningu reglna um það hvenær prestum sé skylt eða eftir atvikum heimilt að framkvæma hjónavígslu. 

„Þeir eru bara opinberir embættismenn og mega ekki mismuna á grundvelli kynhneigðar. Það er bara þetta almenna sjónarmið. Mér finnst að þeir eigi ekki að vera með slíka mismunun, það er bara mín skoðun,“ segir Ólöf.

Samviskufrelsið „stjórnarskrárvarinn réttur“

Af svari Biskupsstofu til ráðuneytisins vegna fyrirspurnarinnar og orða starfandi biskups við Fréttablaðið í morgun má þó ráða að prestar þjóðkirkjunnar geti beitt samvisku sinni fyrir sig þegar kemur að því að veita þjónustu.

Í greinargerð Biskupsstofu með svari sínu til innanríkisráðuneytisins kemur þannig fram að 
eftir síðustu breytingar á hjúskaparlögunum þar sem fólki af sama kyni var veittur réttur til að ganga í hjónaband hafi þjóðkirkjan ávallt litið svo á að réttur samkynhneigðra til kirkjulegrar hjónavígslu væri tryggður þó að friðhelgi prests til að fara eftir samvisku sinni væri ekki „fyrir borð borinn“.

Í samtali við Fréttablaðið í morgun sagði Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti og starfandi biskup, að samviskufrelsið sé stjórnarskrárvarinn réttur og á meðal dýrmætustu mannréttinda. Sem betur fer giltu engar sérstakar reglur um samviskufrelsi presta.

Í greinargerð Biskupsstofu kemur enn fremur sú skoðun að ekki hvíli sama skylda á kirkjulegum vígslumönnum og borgaralegum að hjónaefni eigi ótvíræðan rétt á að stofna til hjúskapar fyrir þeim. Innanríkisráðuneytið geti sett reglur um þetta fyrir þjóðkirkjuna en það hafi ekki nýtt sér þá lagaheimild.

Í svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurninni segir að ráðuneytið telji að tilefni sé til að kalla eftir tillögum frá biskupi um það hvenær prestum sé skylt að framkvæma hjónavígslu og hvenær þeim sé það heimilt.

Ekkert athugavert að láta á málið reyna

Hilmar Hildar Magnúsarson, formaður Samtakanna '78, sagði í Fréttablaðinu í dag að samtökin muni skoða niðurstöðuna með lögmönnum sínum og að ótækt sé að prestar mismuni fólki í skjóli trúarsannfæringar. Í samtali við mbl.is segir innanríkisráðherra að hún sjái ekkert athugavert að látið verði á þetta reyna.

Svar innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn um samviskufrelsi presta

Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka