Ríkið sýknað af kröfu Tony Omos í Hæstarétti

mbl.is/Sverrir

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem dómurinn sýknaði Útlendingastofnun og íslenska ríkið af kröfum Tony Omos þess efnis að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurð innanríkisráðuneytisins um að taka hælisumsókn hans ekki til efnismeðferðar. Ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurður ráðuneytisins standa því óhögguð eftir dóminn.

Frétt mbl.is: Ríkið sýknað af kröfu Omos

Fram kom í dómi héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, að Omos sé ekki talinn hafa sýnt fram á að stjórnvaldsákvarðanir Útlendingastofnunar og innanríkisráðuneytisins hafi verið haldnar þeim annmörkum að leitt geti til ógildingar þeirra. Voru stefndu því sýknaðir af kröfu Omos í málinu.

Omos óskaði eftir hæli sem flóttamaður á Íslandi í október 2011. Við athugun á málefnum hans í kjölfarið bárust Útlendingastofnun þær upplýsingar frá Interpol að hann hefði óskað eftir hæli í Sviss árið 2008. Var beiðni um viðtöku stefnanda og umsóknar hans um hæli beint til yfirvalda í Sviss hinn 22. nóvember 2011, með vísan til Dyflinnarreglugerðarinnar, að því er fram kemur í dómi héraðsdóms.

Þagnarskyldubrot hafði ekki áhrif

Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars eftirfarandi: „Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2014 var aðstoðarmaður innanríkisráðherra sakfelldur fyrir brot gegn þagnarskyldu í starfi með því að hafa á tímabilinu frá 19. til 20. nóvember 2013 látið óviðkomandi í té efni samantektar er bar yfirskriftina ,,minnisblað varðandi Tony Omos“.Var brotið talið varða við 1. mgr. 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Áfrýjandi hefur haldið því fram að af þessum sökum hafi ekki verið gætt hlutlægnisskyldu og jafnræðis við meðferð máls hans af hálfu starfsmanna ráðuneytisins.

Eins og að framan er rakið var úrskurður innanríkisráðuneytisins, þar sem staðfest var ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja beiðni áfrýjanda um að tekin yrði til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi sem flóttamaður, kveðinn upp rúmum tveimur mánuðum áður en fyrrgreint brot gegn þagnarskyldu átti sér stað. Að þessu virtu og þar sem áfrýjandi hefur ekki fært fram nein haldbær rök fyrir þeirri málsástæðu sinni að ekki hafi verið af hálfu innanríkisráðuneytisins gætt að hlutlægnisskyldu og jafnræði við meðferð máls hans er henni hafnað. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert