Strunsuðu út af bókamessunni

Frá bókamessunni í Gautaborg í dag.
Frá bókamessunni í Gautaborg í dag. mbl.is

Fulltrúar ungverskra stjórnvalda strunsuðu út af opnunarhátíð bókamessunnar í Gautaborg í dag, segir Þorgerður Agla Magnúsdóttir, fagstýra Miðstöðvar íslenskra bókmennta, sem stödd er á hátíðinni. Íslenskar raddir eru í brennidepli á hátíðinni í ár. Samkvæmt upplýsingum frá Þorgerði Öglu ruku fulltrúarnir á dyr er Masha Gessen, ötull málsvari tjáningarfrelsis, sagði skoðun sína á framferði ungverskra ráðamanna umbúðalaust.

Formleg opnunardagskrá Bókamessunnar í Gautaborg fór fram í dag. Við athöfnina fluttu fulltrúar Ungverjalands og Íslands ávarp, ásamt einum málsvara tjáningarfrelsis - auk sænska menningarmálaráðherrans. 

„Þó að Ungverjar mæti til Gautaborgar með bókmenntirnar sem gunnfána hafa fulltrúar þeirra jafnframt þurft að glíma við áleitnar spurningar vegna þess hvernig stjórnvöld þar í landi hafa tekið á málefnum flóttafólks,“ segir Þorgerður Agla í tölvupósti til mbl.is.

Áður höfðu bæði Illugi Gunnarsson og sænski kollegi hans gert aðkallandi málefni samtímans að umræðuefni. Illugi fékk sérlega hlýjar móttökur við sínu ávarpi, þar sem hann fjallaði á heimspekilegum nótum um helstu átakamál samtímans - og ítrekaði nauðsyn þess að menn glímdu við þau með samkennd og mannúð að leiðarljósi, segir Þorgerður Agla.

Hér má sjá dagskrá bókamessunnar

Í dag fór fram málþing á bókamessunni um þau áhrif sem stíll og frásagnaraðferð Íslendingasagna hefur haft á samtímahöfunda, sænska og íslenska. Málþingið er hluti af dagskránni „Raddir frá Íslandi“ sem er eitt af þemum messunnar í ár.

Hinn velþekkti forsagnafræðingur og prófessor Lars Lönnroth kallaði til liðs við sig rithöfundana Erik Anderson og Klas Östergrein frá Svíþjóð, ásamt þeim Einari Kárasyni og Gerði Kristnýju. Málþingið fór fram í stórum sal, sem var fullur af fólki. Gerður las meðal annars úr sænskri þýðingu á Blóðhófni.

Áhugi á fornsagnaarfinum okkar hefur enn aukist á Norðurlöndunum eftir að allar Íslendingasögurnar komu út í glænýjum þýðingum á sænsku, dönsku og norsku.

Frá bókamessunni í Gautaborg.
Frá bókamessunni í Gautaborg. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert