Bókstafstúlkun þvert á stjórnarskrá

Kristrún Elsa Harðardóttir, formaður Félags kvenna í lögmennsku.
Kristrún Elsa Harðardóttir, formaður Félags kvenna í lögmennsku.

Ef lagaákvæði um skipan í hæfnisnefnd hæstaréttardómara er skilin bókstaflega eins og Lögmannafélags Íslands (LMFÍ) gerir stangast það á við jafnréttisákvæði stjórnarskrár og jafnréttislög, segir Kristrún Elsa Harðardóttir, formaður Félags kvenna í lögmennsku. Félagið harmar afstöðu LMFÍ að jafnréttislög gildi ekki við skipun nefndarinnar.

Lögmannafélag Íslands er einn fjögurra aðila sem tilnefna menn í dómnefnd sem fjallar um hæfni umsækjenda um störf hæstaréttardómara. Fimm karlmenn sitja nú í nefndinni þrátt fyrir ákvæði jafnréttislaga sem segja að kynjahlutföll skuli vera sem jöfnust í nefndum á vegum ríkisins. Félagið, Hæstiréttur og dómstólaráð telja að dómstólalög gangi framar jafnréttislögum og tilnefningaraðilarnir séu því ekki bundnir af þeim.

Þurfa að túlka lög í samræmi við önnur gildandi lög

Þessa túlkun telur stjórn Félags kvenna í lögmennsku ekki tæka að því er kemur fram í yfirlýsingu. Hún sé til þess fallin að draga úr áhrifum jafnréttislaga á vinnumarkaði sem og annars staðar í samfélaginu yrði henni beitt um fleiri viðlíka sérlög eins og dómstólalög.

„Ef að þessi lög eru skilin á þennan bókstaflega hátt eins og Lögmannafélagið vill skilja þau þá samrýmast þau ekki jafnréttisákvæði stjórnarskrár né jafnréttislögum,“ segir Kristrún Elsa.

Hún telur tillögu sem innanríkisráðuneytið setti fram um að hver tilnefningaraðili veldi tvo kosti, karl og konu, sem ráðuneytið veldi síðan á milli til að tryggja jöfn kynjahlutföll í nefndinni algerlega tæka miðað við núgildandi lög.

„Það eru til margar aðferðir við lagatúlkun. Lög þarf alltaf að túlka í samræmi við önnur gildandi lög. Þú getur ekki túlkað þessi lög í algeru berhöggi við önnur lög sem gilda í landinu, þar á meðal stjórnarskránna. Þá værum við komin á mjög hálan ís,“ segir Kristrún Elsa.

Stjórnvöldum beri að tryggja að nefndin sé skipuð til jafns körlum og konum. Það hvernig það sé útfært sé á hendi stjórnvalda sjálfra. Kristrún Elsa tekur ekki afstöðu til þess hvort að ástæða sé til þess að breyta dómstólalögum til þess að taka af öll tvímæli um hvort jafnréttislög nái til túlkunar þeirra.

Brotið sérlega alvarlegt því aðeins ein kona er dómari við Hæstarétt

Í yfirlýsingu stjórnar Félags kvenna í lögmennsku (FKL) segir ennfremur að hún taki undir með Guðrúnu Erlendsdóttur, fyrrum hæstaréttardómara og heiðursfélaga FKL, um að skipun fimm karlmanna í nefndina sé hreint og klárt brot á jafnréttislögum. Að mati FKL sé brotið sérlega alvarlegt í ljósi þess að í dag er eingöngu ein kona skipuð dómari við Hæstarétt og því einkar mikilvægt að jafna kynjahlutföll á vettvangi þessa æðsta dómstóls landsins.

„Í jafnréttislögum kemur fram að eitt af yfirlýstum markmiðum laganna sé að vinna að jöfnum áhrifum karla og kvenna í samfélaginu. Sú framkvæmd sem viðhöfð hefur verið er varðar skipun í framangreinda nefnd stríðir gegn þessu markmiði laganna með því að skipa eingöngu karla í nefndina og útiloka þar með að konur geti haft áhrif á það hver verði skipaður dómari við Hæstarétt Íslands,“ segir í yfirlýsingunni.

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert