Þau héldu að þau byggju í sama húsi og ástkona einhvers háttsetts embættismanns eða einhver þekktur maður væri í stofufangelsi í húsinu sem var heimili þeirra í Moskvu í rúm tvö ár. Ástæðan var sú að vopnaðir lögreglumenn voru fyrir utan húsið og á stigapallinum fyrir ofan þau allan sólarhringinn. Nú hefur hið sanna komið í ljós.
Tinna Þórarinsdóttir og sambýlismaður hennar, Ómar Þorgeirsson, fluttu til Moskvu í júlí 2012 en þar starfar hún í sendiráði Íslands. Þau bjuggu í íbúð við Nikitsky Bulvar í miðborg Moskvu og lífið gekk sinn vanagang fyrstu mánuðina.
Þau fóru til Íslands um jólin en þegar þau komu til baka þá er það fyrsta sem þau taka eftir er þau renna í hlað að það er lögreglubíll fyrir utan inngang hússins og tveir vopnaðir lögreglumenn.
Hélt að einhver hefði dáið
„Ég hélt fyrst að einhver hefði dáið eða eitthvað alvarlegt hefði gerst. En tveimur dögum seinna báðum við vinnufélaga minn sem var með okkur að spyrja lögreglumennina hvað væri eiginlega í gangi þar sem bæði lögreglubíllinn og lögreglumennirnir voru þarna ennþá. Hann fékk þá skýringu að það byggi gömul kona á hæðinni fyrir ofan okkur sem ætti mikið af dýrum málverkum og að Pútín væri að verja hana,“ segir Tinna í samtali við mbl.is
Lögreglumennirnir sögðu vinnufélaga hennar að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hafi farið fram á vernd fyrir hana. „Okkur fannst þetta eiginlega fáránleg saga og tókum hana rétt mátulega. Við útilokuðum eiginlega að þetta gæti verið satt og þetta væri svona ekta rússnesk saga sem ekkert væri hæft í. Við stóðum í þessari trú allt þangað til nú í vikunni þegar við lástum frétt í Moscow Times þar sem fjallað var um málið,“ segir Tinna. Þetta snérist ekki um ástkonu eða frægan fanga heldur gamla konu og málverk.
Með þúsund málverk í íbúðinni sem metin eru á 2 milljarða Bandaríkjadala
Í frétt Moscow Times á fimmtudagskvöldið kemur fram að þangað til nýlega hafi tveir lögreglumenn gætt hússins allan sólarhringinn árið um kring. Því inni í húsinu býr gömul kona sem á í fórum sínum yfir eitt þúsund málverk, höggmyndir og fleiri listaverk eftir marga af frægustu listamönnum sögunnar. Má þar nefna verk eftir Leonardo da Vinci, Michelangelo, Rembrandt og fleiri meistara endurreisnartímans. Íbúðin lætur ekki mikið yfir sér heldur er þetta þriggja herbergja íbúð í eigu Ninu Moleva og býr hún þar innan um listaverk sem metin eru á tvo milljarða Bandaríkjadala, sem svarar til 258 milljarða króna.
Moleva hefur ánafnað rússneska ríkinu verkin eða nánar til tekið Pútín, eftir sinn dag. Forsetinn tekur enga áhættu og lætur gæta hennar eins og sjáaldurs auga sinna.
Tinna og Ómar bjuggu í íbúðinni þangað til í nóvember í fyrra er þau fluttu í aðra íbúð í Moskvu. Að sögn Tinnu vöndust þau löggæslunni fljótt þó svo að það hafi verið óþægilegt að vera samferða þungvopnuðum lögreglumönnum upp í pínulítilli lyftu. Hún segir að byssurnar sem þeir báru hafi verið stórar en jafnframt gamlar sem þeim hafi alltaf þótt frekar sérstakt.
...en þeir eru með byssur
„Við fengum oft gesti í heimsókn þegar við bjuggum í þessari íbúð meðal annars Íslendinga. Til dæmis komu bæði foreldrar mínir og tengdaforeldar til okkar í heimsókn. Eðlilega var flestum brugðið að sjá lögreglumenn með alvæpni í húsinu en við báðum fólk um að kippa sér ekkert upp við þetta. Þá fengum við oft það svar já en þeir eru með byssur,“ segir Tinna.
„Alltaf þegar við komum út úr lyftunni sáum við vopnaðan lögreglumann á stigapallinum fyrir ofan okkur en maður fór út úr lyftunni á palli fyrir ofan okkar íbúð. Okkur fannst þetta sérstaklega óhugnanlegt í fyrstu og mér fannst óþægilegt að vera með þeim í lyftunni sem er mjög þröng. Ekki síst þegar ég var kasólétt en svo vandist maður þessu,“ segir Tinna.
Svo hvarf lögreglubíllinn
Hún segir að lögreglumennirnir hafi verið mjög almennilegir og eftir að hún og Ómar eignuðust dóttur voru þeir alltaf boðnir og búnir til þess að aðstoða þær mæðgur. „Þeir opnuðu dyrnar fyrir okkur og báru vagninn upp og niður tröppurnar í lyftuna,“ segir Tinna en samkvæmt frétt Moscow Times virðist sem sömu lögreglumennirnir hafi annast gæsluna í tæp tvö ár.
Lögreglumaður sem blaðamaður ræddi við í sumar hafði tekið þátt í gæslunni undanfarin tvö ár. Hann segist hafa vitað af listaverkunum en aldrei séð þau. „Við erum ekki í sambandi við eigandann,“ segir hann og bætir við: „Íbúðin er full af listaverkum. Ég sá þau einu sinni. Ég held að þau séu hollensk,“ segir Vladimír, lögreglumaðurinn sem stendur vaktina á stigapallinum.
En nýverið hvarf lögreglubíllinn og hefur ekki sést fyrir utan húsið síðan en Tinna segir að það sé enn lögregluvakt inni í húsinu. Því þau hafa fylgst grannt með húsinu síðan þau fluttu út þar sem þau ganga oft þarna framhjá til þess að fara með dóttur sína á leikvöll þar skammt frá.
Ævi þeirra sveipuð ævintýraljóma
Í viðtali sem Moleva veitti rússnesku ríkissjónvarpsstöðinni Kultura sýndi hún íbúðina. Benti á verk sem hún sagði eftir Michelangelo og það fleiri en eitt. Jafnframt sýndi hún sjónvarpsáhorfendum verk eftir Rembrant sem var að finna í íbúðinni.
Margar sögur eru til af Molevu og eiginmanni hennar, Ely Belyutin, þekktum listamanni sem lést árið 2012. Ævi þeirra og forfeðra er sveipuð ævintýraljóma og í raun veit enginn hvað er satt og hvað er rússneskt ævintýri.
Afi Belyutíns, Ivan Grinyov, var sviðslistamaður og sterkefnaður ástríðufullur safnari evrópskrar listar.
„Grinyov fékk vel borgað í leikhúsinu,“ sagði Moleva í viðtali við dagblaðið Moskovsky Komsomolets fyrr á árinu. „Hann vildi verða verndari lista líkt og Pavel Tretyakov [Nítjándu aldar listaverkasafnari og stofnandi Tretyakov gallerísins]… svo hann keypti málverk á uppboðum í Evrópu,“ segir Moleva enn fremur í viðtalinu.
Sagan segir að Grinyov hafi geymt listaverk sín í tólf herbergja íbúð sinni í húsinu númer átta við Nikitsky Bulvar, húsinu sem Tinna og Ómar bjuggu í. En eftir byltinguna 1917 faldi hann listaverkin í leynilegu þakherbergi því hann vissi að bolsevíkar myndu leggja hald á verkin eins og þeir gerðu við mörg fræg listaverk í eigu safnara á þessum tíma.
Íbúðinni breytt í kommúnu
Listaverkin fundust ekki en Grinyov var rekinn úr íbúðinni og henni breytt í kommúnu þar sem tugir manna bjuggu.
Næstu fjóra áratugi voru verkin upprúlluð í geymslu á háaloftinu og það var ekki fyrr en árið 1968 sem Belyutin og Moleva fengu leyfi til þess að flytja inn í húsið á ný. Að vísu fengu þau bara þrjú af herbergjunum tólf sem voru í upprunalegu íbúðinni.
Hún lýsir því í viðtali við rússneskt blað hvernig þau hafi fundið verkin óskemmd á sínum stað. Rubens, Velaquez, van Dyck biðu þeirra á háaloftinu.
Þegar Sovétríkin liðu undir lok létu þau franskt uppboðshús meta verkin sem taldi að raunvirði þeirra væri tveir milljarðar Bandaríkjadala. Að minnsta kosti er sagan svona í útgáfu Molevu en ýjað er að því að sagan sé kannski aðeins flóknari og ævintýraljóminn annar.
Ivan Grinyov... er skáldskapur
Því yfirleitt er saga hennar birt í rússneskum fjölmiðlum án þess að blaðamennirnir reyni að grafast frekar fyrir um hvað sé rétt og satt.
Í grein sem birt var í franska blaðinu L‘Express árið 2007 virðist blaðamaðurinn, Alla Shevelkina hafa lagst í rannsóknarvinnu og komist að því að engin gögn eru til um Grinyov. Að minnsta kosti ekki á þann hátt sem Moleva lýsir.
Shevelkina segir í viðtali við Moscow Times að hún hafi ekki fundið Grinyouv sem skráðan fasteignaeiganda í Moskvu. Hún hafi fundið tvo með eftirnafnið Grinyovs í skjalasafni leikhússins, en í báðum tilvikum voru það dansarar og konur þess fyrir utan.
„Ivan Grinyov … er skáldskapur,” segir hún. „Málari/sviðslistamaður fékk ekki nægjanlega há laun til þess að geta keypt list. Nafn hans finnst hvergi og á þessum tíma þá voru allir safnarar vel þekktir, Tretyakov bræðurnir, [Sergei] Shchukin, [Ivan] Morozov ofl. — þeir þurftu ekki að felast,“ bætir hún við.
Eins heyrast efasemdaraddir víða í listasamfélaginu í Moskvu. Bæði um listaverkin og verðgildi þeirra sem og sögu Molevu. Enda virðist enginn vita hvaðan verkin koma og slík verk hafi aldrei legið á lausu.
Því er einnig haldið fram að það hafi enginn sérfræðingur metið verkin heldur eru það bara orð Molevu um hvað þar sé að finna. Hún reyndi á sínum tíma að gefa Pushkin listasafninu verkin en var hafnað. En sérfræðingur í ítalskri list hjá safninu er sannfærður um að verkin séu eftirlíkingar. Sérfræðingurinn hefur hins vegar ekki séð verkin nema á mynd.
Lykilinn að þessu öllu er eiginmaður Molevu, Ely Belyutin, sem var þekktur myndlistarmaður á sínum tíma og stofnandi Nýju listaakademíunnar í Moskvu.
Það er þekkt saga af sýningu sem Belyutin og nemendur hans settu upp í Manezh sýningarhöllinni í Moskvu árið 1962 þar sem nýja málverkið var meginþemað. Þar voru ný verk sem áttu að sýna hvað væri að gerast í listaheimi Sovétríkjanna eftir dauða Jósefs Stalíns árið 1953. Meðal þeirra sem komu á sýninguna var Níkíta Khrútsjov leiðtogi Sovétríkjanna á þessum tíma.
Sýndi honum verk eftir Leonardo da Vinci
Khrútsjov var afar ósáttur við það sem hann sá, samkvæmt frásögn Moscow Times, sagði listamennina vera lélega og verkin ömurleg. „Kunnið þið ekki að teikna? Barnabarn getur teiknað betur en þetta,“ sagði leiðtoginn og í kjölfarið var Belyutin og öðrum listamönnum sem ekki voru fylgispakir ráðandi stefnum kastað út af sýningunni.
Belyutin á að hafa farið í felur í kjölfarið en þrátt fyrir það farnaðist honum vel miðað við marga aðra sovéska listamenn á þessum tíma. Einn þeirra sem þekkti Blyutin var Oskar Rabin og segir hann að þegar hann hafi heimsótt í Belyutin í íbúðina þá hafi listamaðurinn sýnt honum verk sem áttu að vera eftir Leonardo da Vinci en sjálfur geti hann ekki staðfest að það hafi verið satt.
„Í samanburði við okkur þá var hann ríkur því hann átti þetta listaverkasafn. Þú verður að vera ríkur til þess að eiga dýrt listaverkasafn eins og þetta. Hann átti líka mikið af dýrum húsgönum og stóran sumarbústað þar sem hann gat tekið á móti mikilvægum gestum,“ segir Rabin í viðtali við Moscow Times.
Moeva og eiginmaður hennar gerðu lítið til þess að draga úr sögusögnum um auðæfi sín og náið samband við háttsetta menn. Eins hefur verið orðrómur um að Belyutin hafi unnið fyrir leyniþjónustuna og að verkunum hafi verið stolið frá Þjóðverjum.
Það er því enn ráðgáta hvort verkin eru mikils virði eður ei og ekki vitað hvort saga Molevu er sönn eða hugarfóstur hennar og eiginmanns hennar, Ely Belyutin. Eða eins og Tinna segir: „Maður veltir fyrir sér hvort frásögn gömlu konunnar sé rétt eða hvort þetta sé skáldskapur af bestu gerð.“
En það er alveg á tæru í huga gömlu konunnar hvað verði um verkin: Pútín á að fá þau til eignar.