Eitt skipa Grænfriðunga, Arctic Sunrise, liggur í Reykjavíkurhöfn um þessar mundir en það kom hingað til lands hinn 16. september. Skip þetta er hið sama og Rússar gerðu upptækt árið 2013.
Martin Norman, talsmaður Grænfriðunga, segir að ekki hafi verið ráðgerðar neinar aðgerðir við strendur Íslands. Bilun valdi því að skipið liggur hér enn.
Upphaflega var áætlað að Arctic Sunrise hefði stutta viðkomu hér á landi til að skipta um áhöfn og birgja skipið vistum eftir sex vikna dvöl við strendur Grænlands, þar sem skipið fylgdist með hljóðbylgjumælingum í tengslum við olíuleit.
Þegar til stóð að halda úr höfn kom hins vegar í ljós að vélarbilun hafði átt sér stað og nú liggur skipið í Reykjavíkurhöfn á meðan beðið er eftir varahlutum. Stefnt er að því að ljúka viðgerðum í næstu viku og þá mun skipið halda til Kaupmannahafnar.
Frétt mbl.is: Gert að greiða sekt vegna Arctic Sunrise