Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi aðaleigandi Landsbankans, og Gunnar Thoroddsen, fyrrverandi yfirmaður í Landsbankanum í Lúxemborg, hafa verið ákærðir af rannsóknadómara í Frakklandi vegna lána sem Landsbankinn í Lúxemborg veitti fyrir hrun bankakerfisins. Frá þessu er greint á vef Rúv, en þar segir að alls séu níu ákærðir í málinu. Auk Björgólfs og Gunnars eru það meðal annars Daninn Torben Bjerregaard Jensen, Svíinn Olle Lindfors og Belginn Failly Vincent, en þeir voru allir yfirmenn í bankanum í Lúxemborg.
Greint var frá því í september á síðasta ári að Björgólfur væri með stöðu grunaðs manns í rannsókninni. Tók rannsóknin fimm ár, en grunuðum gafst tækifæri til að senda rannsóknadómaranum andmæli og átti ákvörðun um ákæru að vera tekin í kjölfarið. Í málinu er uppi grunur um fjársvik og samningsbrot.
Gunnar sagði í nóvember að hann teldi ólíklegt að ákæra yrði gefin út. „Það eru engin gögn sem hafa komið fram sem gefa til kynna að nein brot hafi verið framin. Mér finnst mjög ólíklegt að það verði gefin út ákæra því ég get ekki ímyndað mér á hverju hún myndi byggjast,“ sagði Gunnar
Viðskiptavinir Landsbankans í Lúxemborg telja sig hlunnfarna eftir að skiptastjóri bankans fór að innheimta ákveðna tegund lána sem voru veitt fyrir hrun, eða á árunum 2006 til 2008. Þeir sem hafa ákveðið að leita réttar síns eru flestir ellilífeyrisþegar sem fengu fjármuni lánaða út á verðmætar húseignir sínar.
Í stað þess að fá fulla greiðslu fyrir fékk fólkið aðeins um 25% greitt út á meðan 75% fjármunanna voru færðir í eignastýringu. Eftir hrun var hafist handa við að innheimta lánin og eru viðskiptavinirnir ósáttir við hvernig staðið var að málum, þ.e. bæði varðandi upphaflegar lánveitingar en einnig vegna innheimtunnar
Fjöldi erlendra viðskiptavina Landsbankans í Lúxemborg hefur undanfarin ár leitað réttar síns vegna tiltekinnar tegundar lána sem þeir tóku hjá bankanum fyrir hrun. Þetta voru aðallega ellilífeyrisþegar sem áttu verðmætar húseignir en ekki mikið lausafé. Fólkið fékk lánað út á allt verðmæti hússins en fékk einungis fjórðung greiddan út. Þrír fjórðu voru settir í eignastýringu þar sem féð var fjárfest í skuldabréfum og hlutabréfasjóðum.
Eftir hrun hóf skiptastjóri Landsbankans í Lúxemborg að innheimta þessi lán. Viðskiptavinirnir segja farið sínar ekki sléttir, bæði varðandi lánveitingar bankans og hvernig skiptastjórinn hefur höndlað málið.