Ekki innistæða fyrir yfirlýsingunni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Engir fyrirvarar voru á yfirlýsingu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, um að Ísland ætlaði að draga úr losun gróðurhúsategunda um 40% á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um helgina. Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir enga innistæðu hafa reynst fyrir yfirlýsingunni sem hafi engu að síður þurft að vera sönn.

Orðrétt sagði forsætisráðherra í ræðu sinni á leiðtogafundi SÞ um sjálfbæra þróun: „[...] ég er bjartsýnn á að við munum sjá frábæra niðurstöðu frá COP21 [loftslagsfundi SÞ í París í desember] og reyndar hét Ísland því nýlega að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir 2030.“

Fjölmiðlar fjölluðu um ræðuna sem stefnubreytingu af hálfu Íslands sem hefur fram að þessu sagst ætla að taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsins, sem Norðmenn taka einnig þátt í, um að draga úr losun um 40% miðað við árið 1990. Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar fram að þessu ekki tilkynnt hversu stórt framlag Íslands verður til þess markmiðs. Ræða Sigmundar Davíðs virtist taka af skarið um það. 

Misræmi í tilkynningu forsætisráðuneytisins

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, bar hins vegar til baka í gær að í ræðu Sigmundar Davíðs hafi falist stefnubreyting í málaflokknum. Ráðherrann hafi ekki skuldbundið Íslendinga til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40%.

„Þetta er ekki einhliða yfirlýsing um 40% lækkun af Íslands hálfu heldur markmið um 40% lækkun í samfloti með Evrópusambandinu. Við höfum sagt að við munum taka við svokölluðu „sanngjörnu hlutfalli“ þangað til núna, þegar forsætisráðherra segir að við munum draga úr losun um 40%, náist samningar,“ sagði Jóhannes Þór við mbl.is í gær.

Í fréttatilkynningu sem birtist á vef forsætisráðuneytisins í gær segir að forsætisráðherra hafi í ræðu sinni „[gert] grein fyrir fyrirætlunum Íslands í samstarfi við Evrópusambandið og Noreg um að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda um 40%“. Sigmundur Davíð minntist hins vegar hvergi á samstarf við sambandið eða Noreg í ræðunni né ræddi hann um neinar samningaviðræður um það eins og ráða má af orðum aðstoðarmanns hans.

Jóhannes Þór vildi ekki tjá sig frekar um ræðu forsætisráðherra eða tilkynninguna á vef ráðuneytisins þegar eftir því var leitað í dag.

Íslensk stjórnvöld hafa beitt stóru hlutfalli endurnýjanlegrar orku sem rökum …
Íslensk stjórnvöld hafa beitt stóru hlutfalli endurnýjanlegrar orku sem rökum fyrir því að draga minna úr losun en önnur ríki.

Fyrirvaralaus yfirlýsing um 40% samdrátt

„Þessi yfirlýsing á laugardaginn, það er ekki innistæða fyrir henni. Þarna voru engir fyrirvarar gerðir sem aðstoðarmaðurinn gerði í gær. Hann segir í yfirlýsingu í gær að forsætisráðherra hafi gert grein fyrir fyrirætlunum Ísland í samstarfi við Evrópusambandið og Noreg en það segir ekkert um það í þessari ræðu, það er bara eftir á tilbúningur,“ segir Árni Finnsson en Árni var einn þeirra sem fögnuðu því sem virtist stefnubreyting íslenskra stjórnvalda.

Hann telur skýringu aðstoðarmannsins á orðum forsætisráðherra heldur lélega og hún standist ekki. Hver sá sem lesi ræðuna átti sig á því að ekkert segi í henni um Evrópusambandið eða Noreg.

Árni telur ljóst af skýringu aðstoðarmannsins, og í raun af landsmarkmiðinu sem íslensk stjórnvöld sendu inn í sumar um samflotið við Evrópusambandið, að Íslendingar muni draga úr losun sinni um minna en 40%. Stefna Íslands sé í raun einhvers staðar á milli 0 og 40%. Það þykir honum ekki sérlega metnaðarfullt markmið.

Ísland þurfi á því að halda að setja sér háleit markmið til þess að sannfæra aðrar þjóðir um að draga úr losun svo hægt sé að stöðva súrnun sjávar í kringum landið.

„Þessi yfirlýsing hefði þurft að vera sönn vegna þess að við þurfum á því að halda við höfum sterkan málstað fyrir París,“ segir Árni.

Norðmenn heita 40%, þrátt fyrir endurnýjanlega orku

Enn hefur ekki verið gefið út hvert eiginlegt framlag Íslendinga til þess að berjast gegn loftslagsbreytingum sem ógna jörðinni verður. Norðmenn taka einnig þátt í sameiginlegu markmiði ESB um samdrátt losunar en þeir hafa þegar lýst því yfir að þeir muni draga úr sinni losun um 40% óháð niðurstöðu loftslagsfundar SÞ í París í desember. Formaður samninganefndar Íslands sagði við mbl.is í júlí að Ísland myndi semja um sitt hlutfall, líklega að fundinum loknum.

Íslensk stjórnvöld hafa notað stórt hlutverk endurnýjanlegra orkugjafa hér á landi sem rök fyrir því að Ísland þurfi að draga hlutfallslega minna úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum en önnur ríki. Engu að síður er aðaluppistaða raforkuframleiðslu Norðmanna vatnsafl sem þó hafa skuldbundið sig til þess að draga úr losun sinni um 40%, ólíkt Íslendingum. 

Fréttatilkynning á vef forsætisráðuneytisins um ræðu Sigmundar Davíðs

Ræða Sigmundar Davíðs á leiðtogafundi SÞ

Fyrri fréttir mbl.is:

40% með Evrópusambandinu

„Afdráttarlausari um minni losun“

Uppfært 12:25: Bætt við setningu um að aðstoðarmaður forsætisráðherra hafi ekki viljað tjá sig frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert