„Þessu olíumálverki eftir Erró var stolið af heimili foreldra minna í sumar [...] Fyrir ábendingu sem leiðir til þess að verkið finnist aftur, og skilist til eigenda, eru 200.000 kr. í fundarlaun.“ Þetta segir í tilkynningu sem birtist á Facebook um helgina. Málið er jafnframt komið á borð lögreglu. Listmunasali segir að verkið sé metið á um þrjár milljónir króna.
Hulda Guðrún Karlsdóttir setti tilkynninguna á Facebooksíðu sína sl. laugardagskvöld en hún er svohljóðandi:
„Fundarlaun! Þessu olíumálverki eftir Erró var stolið af heimili foreldra minna í sumar, í stekkjunum í Breiðholti. Það heitir Arabarnir (á frönsku minnir mig) og er ca. 96 cm x 101 cm. Fyrir ábendingu sem leiðir til þess að verkið finnist aftur, og skilist til eigenda, eru 200.000 kr. í fundarlaun. Það væri vel þegið ef sem flestir gætu deilt myndinni til að auka líkurnar á að hún finnist. Bestu þakkir! Vinsamlegast snúið ykkur til lögreglu ef einhver hefur einhverjar vísbendingar.“
Hulda segir í samtali við mbl.is, að það liggi ekki fyrir hvenær í sumar listaverkinu hafi verið stolið. Foreldrar hennar fluttu í nýtt hús í vor en þau hafa verið úti á landi í allt sumar. Þegar bróðir hennar kom við á heimilinu um miðjan síðasta mánuði tók hann eftir að stormjárn á baðherbergisglugga hafi verið laust. Það kom hins vegar ekki í ljós fyrr en nokkrum vikum seinna að listaverkið væri horfið.
Málið var tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku. Eigendurna grunar að þjófur eða þjófar hafi brotist inn í húsið og stolið málverkinu, sem er það eina sem er saknað úr húsinu.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er málið í rannsókn en engar frekari upplýsingar liggja fyrir að svo stöddu.
Aðspurð segir Hulda að verkið hafi tilheyrt fjölskyldunni lengi. „Þetta var gjöf frá Erró til afa míns og ömmu. Svo erfði mamma það þegar þau féllu frá,“ segir hún og bætir við að verkið hafi aldrei gengið kaupum og sölum.
Þá segist hún ekki vita til þess að ábendingar hafi borist til lögreglu eftir að fundarlaunum var heitið. Þá hafa ekki borist ábendingar frá listagalleríum hér á landi, þ.e. að tilraun hafi verið gerð til að selja verkið.
Tryggvi Páll Friðriksson, listmunasali hjá Gallerí Fold, segir í samtali við mbl.is að það sé nær ómögulegt að reyna selja verkið hér á landi. Mögulegt sé að þjófarnir reyni að koma því í verð erlendis. Aðspurður segir hann að verkið sé a.m.k. metið á um þrjár milljónir króna.
„Ef þetta kæmi hérna í sölu þá myndum við þekkja þetta verk alveg á stundinni,“ segir Tryggvi og bætir við að erlendis gæti verkið mögulega lent inni á einhverju uppboði.
„Ég held að það sé alveg útilokað að það væri hægt að koma þessu verki í verð hérna. Nema hjá einhverjum safnara sem myndi geyma það niðri í kjallara hjá sér,“ segir Tryggvi.