Hreint loft ekki næg ástæða

Niðurstöður rannsóknarinnar voru á þá leið að fólk þyrfti að …
Niðurstöður rannsóknarinnar voru á þá leið að fólk þyrfti að sannfærist um nauðsyn aðgerða í loftlagsmálum til að almenningur fylkist um þær. AFP

Skynsamlegt er að sýna almenningi fram á að hann hafi hag af aðgerðum til að milda áhrif loftslagsbreytinga ef takast á að fylkja liði um slíkar aðgerðir. Ekki nægir að benda á umfang vandans til að fólk sannfærist um nauðsyn aðgerða. Þetta er mat fjölþjóðlegs teymis umhverfis- og félagssálfræðinga sem birtir niðurstöður sínar í fræðitímaritinu Nature: Climate Change í dag.

Þrjár íslenskar fræðikonur meðal höfunda

Á meðal höfunda eru þrjár íslenskar fræðikonur, þær Ragna Benedikta Garðarsdóttir, dósent í félagssálfræði við Háskóla Íslands, Nína María Saviolidis, sem lauk nýverið MS-gráðu í umhverfis- og auðlindafræðum frá Háskóla Íslands, og Gró Einarsdóttir, doktorsnemi í samfélagssálfræði við Gautaborgarháskóla í Svíþjóð. Allar hafa þær rannsakað aðgerðir fólks til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Ragna var ábyrgðarmaður rannsóknarinnar hér á landi og fékk Nínu Maríu til liðs við sig sem vann meistaraverkefni tengt þessari rannsókn. Gró tilheyrir teymi rannsakenda við Gautaborgarháskóla sem sá um sænskan hluta rannsóknarinnar. Gró hefur einnig kynnt niðurstöður þeirra á alþjóðlegri ráðstefnu.

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands kemur fram að rannsóknin byggist á svörum sex þúsund manns í 24 ríkjum og hefur tekið þrjú ár í framkvæmd. Stjórnandi rannsóknarinnar er Dr. Paul Bain við Sálfræðideild Tækniháskólans í Queensland í Ástralíu. Samkvæmt rannsakendum hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum vikið að undanförnu fyrir öðrum brýnum alþjóðamálum í vitund almennings. „Sumir trúa því ekki enn að loftslagsbreytingar séu af manna völdum og enn aðrir hafa engar áhyggjur af málinu því þeir átta sig ekki á umfangi vandans,“ segir Ragna Benedikta Garðarsdóttir og vísar til þess að illa gengur að fá fólk til að breyta hegðun sinni til að sporna gegn loftslagsbreytingum.

Hreinna loft og bætt heilsa ekki nægar ástæður

Af þessum sökum stefndu höfundar rannsóknarinnar að því að athuga hvort fólk væri frekar tilbúið til þess að breyta hegðun sinni í vistvæna átt ef það tryði því að slíkt átak hefði einnig í för með sér annars konar ávinning.

„Það er í raun verið að athuga hvort aukinn hvati sé til þess að breyta hegðuninni ef fólk trúir því að það skili einhverju öðru líka, einskonar tveir fyrir einn,“ segir Ragna. Það kom í ljós að fólki finnst hreinna loft og bætt heilsa ekki nægar ástæður til þess að breyta hegðun sinni í vistvæna átt. Aftur á móti er fólk líklegra til að vilja breyta hegðun sinni ef ávinningurinn verður mannvænna og vinalegra samfélag og aukin tækni- og efnahagsþróun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka