Sjö kínverskir ferðamenn brunuðu um mela skammt frá Hnausapolli í Landmannalaugum í gær. Voru þeir á tveimur jeppum frá bílaleigu og hlutu ökumennirnir hvor um sig hundrað þúsund krónur í sekt fyrir utanvegaaksturinn. Skálavörður fékk fólkinu hrífur og hvatti það til að jafna jarðveginn, sæju þau eftir athæfinu.
Náttúruspjöllin sem ökumennirnir skildu eftir sig ná yfir níu hektara svæði, eða 90 þúsund fermetra og höfðu þeir meðal annars spólað í hringi og ekið upp brekkur.
Frétt mbl.is: 1 km för eftir utanvegaakstur
Skálavörður Ferðafélags Íslands (FÍ) segir að töluvert hafi verið um utanvegaakstur á svæðinu í sumar. Verktaki félagsins sem kom að fólkinu telur ólíklegt að fólkið hafi ekki vitað að það væri að brjóta lög.
„Þegar ég var búinn að taka myndir af förunum elti ég þau uppi og tók myndir af bílnúmerunum. Síðan stöðvaði ég þau og tilkynnti þeim að þetta væri eins ólöglegt og þau gætu hagað sér á Íslandi og skammaði þau aðeins,“ segir Eiríkur Finnur Sigursteinsson, verktaki hjá FÍ.
Hann varð vitni að utanvegaakstrinum og tilkynnti hann til landvarðar í Landsmannalaugum. Skömmu síðar kom lögregla á Hvolsvelli á staðinn og stóð fólkið að verki.
Hvernig brugðust ferðamennirnir við þegar þú gerðir athugasemd við utanvegaaksturinn?
„Þau voru miður sín. Ég var í svo vondu skapi að ég gaf þeim ekki færi á að útskýra mál sitt. Ég veit ekki hvort þau þóttust ekki vita að þau mættu þetta ekki,“ segir Eiríkur.
Hann bendir á að hann hafi sjálfur leigt bílaleigubíl um morguninn og á bílaleigunni hafi öllum átt að vera ljóst að óheimilt er að aka utan vega, svo skýrar hafi leiðbeiningarnar verið. Þá er einnig að finna leiðbeiningar í bílunum sjálfum.
Kristinn Jón Arnarson, skálavörður FÍ í Landmannalaugum, segir að um sjö kínverska ferðamenn hafi verið að ræða sem hafi spólað í hringi og keyrt upp brekkur á stóru svæði.
Brá hann á það ráð að senda þau af stað með hrífur og gef þeim kost á að raka yfir skemmdirnar. „Ég lét þau vita að ef þau sæju eftir þessu ættu þau að reyna að gera eitthvað í því og lét þau fá hrífur,“ segir Kristinn Jón í samtali við mbl.is.
Fólkið varði nokkrum tíma á melunum með hrífurnar og náðu að lagfæra skemmdirnar að einhverju leyti. Kristinn Jón bendir þó á að skemmdirnar séu á stóru svæði og því þurfi meira til en nokkra einstaklinga með hrífur til að laga þær. Ökumennirnir voru sektaðir á staðnum og greiddi hvort um sig hundrað þúsund krónur.
Aðspurður segir Kristinn Jón að töluvert hafi verið um utanvegaakstur á svæðinu í sumar. „Því miður er þetta alltaf stórt vandamál hér,“ segir hann.