„Þurfum að hagræða í borginni“

Ilmur segir eldri borgara vera fjölbreyttan hóp.
Ilmur segir eldri borgara vera fjölbreyttan hóp. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Það er ljóst að við þurfum að hagræða í borginni og það hefur áhrif á öll starfssvið sveitarfélagsins. Við reynum eftir ýtrasta megni að láta það ekki bitna á þeim sem mest þurfa á þjónustu að halda,“ segir Ilmur Kristjánsdóttir formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar um skerðingu heimaþjónustu í hverfum borgarinnar.

„Það var því alveg við þessu að búast. Þau eru auðvitað að bregðast við halla á sínum rekstri því það er ljóst að ekki verður lögð aukafjárveiting í þetta,“ segir Ilmur, en Sigrún Ingvars­dótt­ir, deild­ar­stjóri þjón­ustumiðstöðvar Laug­ar­dals og Háa­leit­is, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að þjónustan væri síður skert hjá þeim sem eigi litl­ar aðrar bjarg­ir.

Eldri borgarar fjölbreyttur hópur

„Þetta er í raun gert til að geta veitt sem besta þjónustu þeim sem þurfa á henni að halda. Kannski höfum við ekki forgangsraðað nógu vel hingað til. Við höfum verið að flokka eldri borgara sem einn flokk þegar þetta er auðvitað mjög fjölbreyttur hópur,“ segir Ilmur.

Hún bætir við að breytinga sé þörf og að þetta verði ekki sú síðasta. Mikið mæði á þjónustumiðstöðinni sem er til umræðu. „Hún er langstærst og þarna eru flestir fatlaðir einstaklingar og flestir aldraðir. Það mæðir því mikið á þessari tilteknu þjónustumiðstöð.“

Að lokum segir hún aðspurð að hugmyndin um þrifavélmenni hafi verið gripin úr lausu lofti. „Það er að minnsta kosti ekki þjónusta sem borgin ætlar að bjóða upp á. Ég held að borgin í heild sinni þurfi annars að líta til tækninýjunga, hvort sem það sé í þrifum eða öðru. En ég held að það sem Sigrún sé að vísa til þarna er að það séu til lausnir sem fólk getur nýtt sér.“

Sjá frétt mbl.is: Eldri borgarar noti skúringaróbóta

Skortur á undirbúningi

„Mér finnst afar skrýtið að fólki sé vísað beint til ættingja nú þegar þjónustunni sleppir. Í þessu speglast bara skortur á undirbúningi af hálfu borgarinnar,“ segir Áslaug María Friðriksdóttir fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði um skerðingu heimaþjónustunnar.

Í þessu tilliti vísar Áslaug til Norðurlanda þar sem rætt hafi verið um að sveitarfélög auglýsi velferðarþjónustu einkaaðila.

„Svona breytingar þarf einfaldlega að undirbúa. Tilkynna þarf notendum þjónustunnar hvaða fyrirtæki eru til staðar í borginni sem geta veitt sömu þjónustu. Einkaaðilar eru hluti af heildarkerfinu þannig að sjálfsagt væri að gera þeim hærra undir höfði,“ segir Áslaug.

Tilkynnt harkalega

„Um er að ræða þrif einu sinni til tvisvar í mánuði. Það er ekki mikið og það er örugglega vel hægt að leysa þetta öðruvísi. En þetta virðist vera tilkynnt dálítið harkalega og ekki nógu vel undirbúið.“

Áslaug segir að notkun vélmenna í stað starfsmanna væri stórsniðug hugmynd. „Það er alls ekki slæmt. Það er kannski dálítið bratt að heyra að það eigi bara að taka við. En á sama tíma getur það klárlega hjálpað mikið til. Við þurfum að venjast því að horfa til nýrrar tækni og hugsa hvernig við getum notað hana, svo að fólk geti betur og lengur hugsað um sig sjálft.“

„Varað við þessu í fimm ár“

Þá segir hún álag á velferðarkerfi borgarinnar vera að aukast.

„Þrátt fyrir það hefur ekkert verið forgangsraðað þannig að hægt sé að þjóna öllum með góðum hætti. Þetta er afleiðing bágrar fjárhagsstöðu borgarinnar en samt sem áður hefur ekki verið hart í ári undanfarin misseri. Það er búið að sóa tækifærum til að undirbúa nákvæmlega þetta og það er það sem við höfum varað við undanfarin fimm ár.“

Aðspurð segir Áslaug að hún búist við að málið verði rætt á næsta fundi velferðarráðs.

Ilmur Kristjánsdóttir formaður velferðarráðs.
Ilmur Kristjánsdóttir formaður velferðarráðs.
Áslaug María Friðriksdóttir.
Áslaug María Friðriksdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert