Stöðugleikaframlagið sem kröfuhafar Kaupþings samþykktu á fundi sínum í Hörpu í dag að greiða, var samþykkt með 99,94% atkvæða. 0,000003% atkvæða féllu gegn því og 0,06% atkvæða voru auð. Stöðugleikaframlagið nemur 120 milljörðum króna og verður það greitt til ríkisins.
Þá samþykktu þeir einnig að höfða ekki mál á hendur ríkinu og Seðlabanka Íslands vegna nauðasamninganna og að settur yrði upp skaðleysisjóður fyrir slitastjórnina og ráðgjafa hennar vegna mögulegra málaferla á hendur þeim, samkvæmt fréttaflutningi Ríkisútvarpsins.
Meirihluti kröfuhafa slitabús Glitnis samþykktu á kröfuhafafundi fyrr í mánuðinum heimild slitastjórnar bankans til þess að undirbúa nauðasamninga á grundvelli fyrirliggjandi tillögu um stöðugleikaframlag.
Jafnframt var á sama fundi samþykkt stofnun tæplega tíu milljarða króna sjóðs sem ætlað er að tryggja skaðleysi slitastjórnar Glitnis gegn hugsanlegum málsóknum vegna starfa hennar.
Sjá frétt mbl.is: Kröfuhafar samþykktu stöðugleikaframlagið
Ekki hefur enn komið fram hversu stór skaðleysissjóður slitabús Kaupþings verður.
Kröfuhafar Kaupþings eru alls um 13.000 og eru staðsettir í ríflega 100 löndum. Það ásamt öðru gerir endurskipulagningu Kaupþings að einu umfangsmesta og flóknasta endurskipulagningarverkefni sem nokkurs staðar og nokkru sinni hefur verið unnið og það á heimsvísu.
Þannig lýsti Jóhannes Rúnar Jóhannsson, formaður slitastjórnar Kaupþings, samningaferli slitastjórna föllnu viðskiptabankanna við kröfuhafa slitabúanna, í samtali við ViðskiptaMoggann í ágúst.
Þegar Alþingi samþykkti í júlí lög um stöðugleikaskatt á slitabú föllnu bankanna var einnig samþykkt bráðabirgðaákvæði sem þrengdi kröfulýsingarfrest þeirra til muna sem telja sig eiga búskröfu í slitabúin.
Sjá frétt mbl.is: Haftafrumvörpin samþykkt
Fram að lagasetningunni var hægt að lýsa kröfum að atkvæðagreiðslu um nauðasamning en eftir breytinguna var frestur veittur til 15. ágúst síðastliðins. Lögin voru birt 18. júlí og því veitti löggjafinn aðeins 29 daga frest til handa þeim sem töldu sig eiga kröfur á búin en höfðu ekki lýst kröfu fram að þeim tíma.
Hróbjartur Jónatansson, hæstaréttarlögmaður, gerði þá athugasemdir við þessi vinnubrögð og bendir meðal annars á að slitabúin hafi í engu auglýst hinn stytta frest og þá hafi lögin ekki verið þýdd á ensku, þrátt fyrir umfangsmikil umsvif slitabúanna erlendis.
Áreiðanlegar heimildir Morgunblaðsins hermdu fyrir réttri viku að Kaupþing hafi beitt sér fyrir því gagnvart Alþingi að kröfulýsingarfresturinn yrði styttur með þeim hætti sem raun varð á.
Sjá frétt mbl.is: Kaupþing beitti sér fyrir lagasetningu
Ekki síst var það vegna ótta við aðgerðir fjárfestisins Vincents Tchenguiz sem staðið hefur í málaferlum við slitabúið á síðustu árum og haldið fram hundraða milljarða fjárkröfum á hendur því og endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton UK fyrir breskum dómstólum.
Fyrr í september sendi slitastjórn Kaupþings Seðlabanka Íslands formlega beiðni um undanþágu frá gjaldeyrishöftum, til þess að geta framfylgt því samkomulagi sem gert var milli hluta kröfuhafa og sérstaks framkvæmdahóps stjórnvalda um losun fjármagnshafta.
Var umsóknin byggð á tillögu kröfuhafa en fjármála- og efnahagsráðuneytið greindi í júní frá því að Akin Gump LLP, fyrir hönd kröfuhafa í slitabú Kaupþings, hefði sent fjármálaráðherra tillöguna, sem byggði á samræðum þeirra við framkvæmdahópinn og ráðgjafa Íslands.
Sjá frétt mbl.is: Kaupþing óskar eftir undanþágu