Berlínarmúrinn kominn til landsins

Listaverkið, hluti úr Berlínarmúrnum, á hafnarbakkanum í Reykjavík.
Listaverkið, hluti úr Berlínarmúrnum, á hafnarbakkanum í Reykjavík.

Listaverk, steinsteypt eining úr Berlínarmúrnum, er komið til landsins með Hoffelli, einu af skipum Samskipa. Um er að ræða gjöf til Reykjavíkurborgar frá listamiðstöðinni Neu West Berlin í tilefni af 25 ára endursameiningu Þýskalands. Götulistamaðurinn Jakob Wagner myndskreytti eininguna sem var hluti Berlínarmúrsins þar sem hann lá yfir Potsdamer Platz, þar sem múrinn opnaðist hvað fyrst í nóvember 1989.

Í fréttatilkynningu frá Samskipum kemur fram að verkið vegur um fjögur tonn og er 3,7 metra hátt. Samskip tóku að sér flutning verksins sem híft var á flutningabíl í miðborg Berlínar og flutt landleiðina, um 700 km, til Rotterdam. Þar var því skipað um borð í Hoffellið sem flutti það til Reykjavíkur.  

Frétt mbl.is: Sögðu „já takk“ við broti úr Berlínarmúrnum

Sá hluti múrsins sem hingað kemur er einn af nokkrum sem götulistamenn skreyttu fyrir Neu West Berlin listamiðstöðina og voru hluti sýningar sem haldin var árið 2011, þegar 50 ár voru liðin frá því að Berlínarmúrinn var reistur.

„Verkið er hluti af heimssögulegum viðburði og því  sérstakt ánægjuefni fyrir Samskip að sjá um flutning þess frá Berlín til Reykjavíkur,” segir Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa, í fréttatilkynningu. Verkinu hefur verið valinn staður við Höfða en leiðtogafundurinn 1986 er talinn marka upphaf endaloka kalda stríðsins.

Á tímum Berlínarmúrsins var Potsdamer Platz hlutlaust svæði á landamærum Austur- og Vestur-Berlínar. Áður var þar iðandi mannlíf og á fyrri hluta síðustu aldar voru þar umferðarmestu gatnamót í Evrópu. Þar hefur risið nútímalegt verslunarhverfi þar sem standa nokkrar myndskreyttar einingar úr múrnum, m.a. með myndum eftir Jakob Wagner.

Jakob er 29 ára Berlínarbúi sem hefur skapað sér nafn sem götulistamaður, auk þess sem hann hefur fengist við margvíslega hönnun, s.s. á framhliðum verslana og næturklúbba. Hann gerði nýverið samning við hið þekkta fyrirtæki Rosenthal um hönnum og myndskreytingar á postulínsmunum sem hafa beina skírskotun til Berlínarmúrsins.

Listaverkið, hluti úr Berlínarmúrnum, híft á flutningabíl í Berlín.
Listaverkið, hluti úr Berlínarmúrnum, híft á flutningabíl í Berlín.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert