Náttúruverndin hrökkvi skammt án tillits til loftslagsbreytinga

Mikill fjöldi ferðamanna streymir til landsins þessi misserin. Lítið hefur …
Mikill fjöldi ferðamanna streymir til landsins þessi misserin. Lítið hefur verið hugað að þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem ferðamennskan hefur í för með sér. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íslensk náttúruverndarbarátta hefur skilað mörgu góðu en taki hún ekki mið af veruleika loftslagsbreytinga hrekkur hún skammt. Þetta sagði Guðni Elísson, prófessor í íslensku- og bókmenntafræði við Háskóla Íslands, á umhverfisdegi atvinnulífsins í dag. Ekki sé hægt að tefla túrisma fram sem valkosti við stóriðju án þess að huga að loftslagsáhrifunum.

Guðni, sem stofnaði Earth 101 sem er upplýsingaveita um loftslagsmál árið 2012, fjallað um loftslagsbreytingar í málstofu á vegum Samorku á fyrsta umhverfisdegi atvinnulífsins sem haldinn var í morgun.

Þar sagði hann að loftslagsbreytingar sem menn valda nú á jörðinni með losun sinni á gróðurhúsalofttegundum með bruna jarðefnaeldsneytis ættu að vera stærsta breytan í allri umræðu okkar um virkjunarmál og verndun náttúrunnar og móta afstöðu okkar og ákvarðanir. Guðni lofaði íslensk náttúruverndarbaráttu sem hefðu ýmsu góðu áorkað. Tæki hún hins vegar ekki mið af loftslagsvánni hrykki hún þó skammt.

Þannig hefðu sumir áberandi umhverfisverndarsinnar teflt ferðamennsku fram sem umhverfisvænni valkosti gegn stóriðju hér á landi. Í því samhengi benti Guðni á að hver gestur sem flygi frá Berlín til Íslands stuðlaði að losun á um það bil tonni af koltvísýringi og kínverskir ferðamenn í kringum þrjú tonn hver.

Ferðmannastraumurinn á við tvö álver

Komi ein milljón ferðamanna til landsins gæti því heildarlosun gróðurhúsalofttegunda sem hlytist af komu þeirra hingað numið einni milljón tonna á ári. Spurði Guðni hversu mörgum álverum sú losun jafngilti. Þetta væri ein þeirra spurninga sem yrði að spyrja í þessu samhengi.

Samkvæmt upplýsingum sem finna má á vefsíðu Umhverfisstofnunar kemur fram að losun álvers Alcoa á Reyðarfirði, svo dæmi sé tekið, hefur verið í kringum hálfa milljón tonna á ári undanfarin ár. Koma ferðamanna til Íslands með flugvélum gæti því jafnast á við tvö álver á ársgrundvelli.

Guðni Elísson, prófessor í íslensku og bókmenntafræði við Háskóla Íslands …
Guðni Elísson, prófessor í íslensku og bókmenntafræði við Háskóla Íslands og stofnandi Earth 101. mbl.is/Kristinn

Guðni fullyrti að ef íslensk umhverfisverndarsamtök ætluðu að halda áfram að einblína á staðbundin mál muni þau í framtíðinni þurfa að reiða sig á erlend baráttusamtök til þess að vernda náttúru Íslands fyrir áhrifum loftslagsbreytinga.

Þá minnti hann stjórnvöld á að engin tækifæri fælust í loftslagsbreytingum og allir töpuðu á þeim á endanum. Hins vegar væru ýmis tækifæri í því falin að bregðast við vandanum. Íslensk orkufyrirtæki þyrftu að skilgreina í hvað orkan sem þau framleiða eigi að fara áður en ráðist sé í nýja virkjunarkosti og setja ætti kolefnislausan iðnað á oddinn í því samhengi.

Útdráttur úr erindi Guðna á vefsíðu Samorku

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert