Ekki fleiri pysjur frá árinu 2003

Pysja.
Pysja. Ljósmynd af vefsíðu Sæheima

Búið er að koma með rúmlega 2.100 pysjur í Sæheima í Vestmannaeyjum í haust og metfjöldi í sögu pysjueftirlitsins sem hófst árið 2003. Stofninn hefur verið í lágmarki undanfarin ár svo virðist sem rauð sævestla haldi í pysjunni lífi.

Erpur Snær Hansen hjá Náttúrufræðistofu Suðurlands segir í samtali við mbl.is að 700 pysjur hafi verið merktar þetta haustið en það er meðal annars gert til að fylgjast með lífslíkum pysjanna.

Svífa í hópum að bænum

Pysja er ungi lunda. Hún situr sem fastast í hreiðrinu á meðan foreldrarnir bera í hana ætli og fitnar hún og stækkar þegar líður á sumarið. Þegar líður á ágúst yfirgefur hún hreiðrið og flýgur á haf út. Stundum svífa þær, jafnvel í hópum, að kvöld- eða næturlagi að bæjum þar sem eru björt ljóst.

Pysjurnar, sem hafa ekki fyllilega náð taki á fluginu, eiga á hættu að vera köttum, bílum eða mönnum að bráð eða deyja úr hungri í bænum.

Í Vestmannaeyjum er hefð fyrir því að börn komi pysjunum til bjargar, setji þær í pappakassa og sleppi þeim síðan í sjóinn næsta dag. Þá er farið með þær niður í fjöru og þar er þeim kastað upp í vindinn því þá ná þær helst á flug.

Pysjurnar óvenju seint á ferðinni

„Börnin eru enn að finna pysjurnar og er það óvenju seint,“ segir Erpur Snær og bætir við að pysjutíminn hafi aldrei staðið svona lengi áður.

Það sé vegna þess að varpið fór seint af stað og hafa pysjurnar vaxið mjög hægt. „Rauða sævestlan er ekki súperfæða en fuglarnir nota hana þar sem hún er fyrir hendi,“ segir hann.

Pysjurnar eru strandaglópar í bænum og skríða jafnvel undir bíla. „Þær eru hræddar, þetta er í fyrsta skipti sem þær koma í hinn stóra heim,“ segir Erpur Snær.

Vefsíða Sæheima

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert