Búast má við hálku víða um land aðfararnótt laugardags og á laugardagsmorgun, þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu. Gert er ráð fyrir kólnandi veðri á landinu í kvöld og þá má búast við éljum norðanlands en einnig í nótt og á morgun.
Að sögn Helgu Ívarsdóttur, veðurfræðingi hjá Veðurstofu Íslands, verður kuldakastið þó aðeins skammvinnt að þessu sinni. „Það kólnar frekar ört í kvöld og í nótt má búast við að það verði næturfrost, þá sérstaklega inn til landsins en við ströndina er yfirleitt frostlaust,“ segir hún.
Kuldanum fylgir úrkoma fyrir norðan í nótt og má því búast við að víða verði hvítt í fyrramálið. Snjóinn tekur þó upp þegar líður á morguninn og daginn. „Á morgun erum við með fimm til tíu stiga hita sunnan til á landinu en fyrir norðan eru ekki nema eitt til sex stig, mun kaldara en verið hefur,“ segir Helga.
Aðfararnótt laugardags kólnar enn meira og má víðast hvar búast við að hiti verði um eða undir frostmarki um nóttina. Á laugardaginn verður loftmassinn svo kaldur að það gæti verið slyddukennt víða.
„Strax á sunnudag snýst þetta alveg við í vaxandi suðaustanátt og verður þá talsverð úrkoma um landið sunnan- og vestanvert og áfram á mánudag. Á þriðjudag og miðvikudag má gera ráð fyrir mildu veðri og suðaustlægum áttum en ekki eins mikilli úrkomu. Það verður helliringing á sunnudag og mánudag,“ segir Helga.
Búat má við hálku víðast hvar á föstudagsmorgunn, aðfararnótt laugardags og á laugardagsmorgun. Þá ættu þeir sem fara á milli landshluta eða yfir heiðar gera ráð fyrir hálku.