Skipverjar á Goðafossi börðust við mjög erfiðar aðstæður við eld í skipinu í nóvember 2013, þegar hann blossaði upp 90 sjómílur vestur af Færeyjum. Þurftu skipverjar að nota aðra hendi til að halda sér og stýra slökkvibúnaði með hinni hendinni. Þá var mikill sjór á ferðinni á slökkvistaðnum sem gerði þeim mjög erfitt um vik. Á sama tíma voru aðstæður á hafi mjög erfiðar og valt skipið allt að 45°. Þetta segir í nýbirtri skýrslu Rannsóknanefndar samgönguslysa um slysið.
Sjór var notaður við slökkvistarfið, en eldtungur stóðu um 4-6 metra upp úr skortsteininum þegar mest var, að því er segir í skýrslunni. Áhöfnin skipti sér upp í tvo hópa til að reyna að slökkva eldinn, annar hópurinn nálgaðist eldinn að neðanverðu og hinn að ofanverðu af brúarþaki, en átta hæðir voru milli hópanna.
Slökkviliðshópur á brúarþaki stóð meira og minna í reykjarkófi og þurftu þeir að skiptast á að fara inn í brúnna til aðhlynningar s.s. skolun á augum o.s.fr.v. Einn skipverji slasaðist á vinstra fæti við fall á blautu gólfi í brú skipsins. Slökkvistarf tók tæplega tvær klukkustundir. Báðar þyrlur, flugvél og varðskip gæslunnar voru send af stað til skipsins en ekki reyndist þörf á aðstoð þeirra.
Þegar lagt var af stað til Íslands eftir að allt slökkvistarf var búið gaus aftur upp eldur í afgasröri aðalvélar, en ekki tók langan tíma að slökkva hann. Í framhaldinu var ákveðið að sigla skipinu til Þórshafnar í Færeyjum.