Of dýrt að leita til læknis

Þórður Markús Þórðarson leyfir sér þann munað einu sinni í …
Þórður Markús Þórðarson leyfir sér þann munað einu sinni í mánuði að kaupa sér kjúkling á veitingastaðnum KFC fyrir 900 krónur. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Tæplega sjötugur Selfyssingur, Þórður Markús Þórðarson, íhugar að selja húsið sitt vegna erfiðleika við framfærslu. Sú upphæð sem honum sé skömmtuð úr lífeyrissjóði auk örorkubóta dugi ekki til mannsæmandi lífs.

Þórður Markús veiktist alvarlega í upphafi síðasta áratugar og fór í erfiða hjartaaðgerð. Nýrun skemmdust við veikindin og hefur hann síðan verið háður lyfjum.

Í umfjöllun um mál hans í Morgunblaðinu í dag kemur meðal annars fram, að vegna þröngrar stöðu fjárhagslega dregur Þórður Markús að leita til læknis og segist leyfa sér þann munað einu sinni í mánuði að kaupa sér kjúkling á veitingastað fyrir 900 krónur.

Fram kom í Morgunblaðinu sl. þriðjudag að 1. september voru 3.277 einstaklingar á aldrinum 60 til 80 ára á vanskilaskrá, 22 fleiri en í fyrra. Það er vart marktæk breyting en á móti kemur að það fækkar töluvert í öllum yngri aldurshópum.

Sextándi hver Íslendingur 60-80 ára er nú á vanskilaskránni.

 Þórður Markús Þórðarson mun að óbreyttu neyðast til að selja raðhús sitt á Selfossi vegna þess að tekjur duga ekki fyrir útgjöldum.

Eftir að Þórður Markús veiktist alvarlega hefur hann ekki getað unnið fullan vinnudag. Nýrun skemmdust við hjartabilunina og þarf Þórður Markús að taka lyf daglega.

Síðan hann veiktist og varð öryrki hefur Þórður Markús neyðst til að ganga á eignir sínar svo hann eigi fyrir útgjöldum. Hann hefur selt bílinn, málverk og aðrar eignir og tekið út allan séreignarsparnað sinn hjá lífeyrissjóði. Eftir stendur raðhús á Selfossi sem hann á skuldlítið.

Tekjur hans nú eru greiðslur frá tveimur lífeyrissjóðum, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) og Sameinaða lífeyrissjóðnum, og örorkubætur frá Tryggingastofnun. Samanlagt eru þessar greiðslur upp á 211.203 krónur á mánuði. Þar af er hluti Tryggingastofnunar 117 þúsund krónur.

Þórður Markús segir að þegar fastir útgjaldaliðir séu dregnir frá sé lítið eftir af þessum tekjum. Þær séu langt undir neysluviðmiðum sem gefin voru út fyrir einstaklinga fyrir nokkrum árum.

Hann þurfi að greiða 10 þúsund á mánuði í lyf, 32 þúsund í lán og afborganir og 43 þúsund fyrir hita, rafmagn, fasteignagjöld og sjónvarp. Samanlagt eru þetta 85 þúsund á mánuði.

 Eru þá eftir 126 þúsund á mánuði sem Þórður Markús þarf að láta duga fyrir mat, fatnaði og öðrum nauðsynjum og óreglulegum útgjöldum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka