„Það er farið að farið að brjóta gríðarlega á landi hjá okkur,“ segir Auður Guðbjörnsdóttir, bóndi á Búlandi í Skaftártungu. Tjón er að verða á beitarlandi og ræktuðu landi og er það töluvert tjón fyrir bændurna, enda ekki auðvelt að rækta nýtt land á þessu svæði.
Rennsli í Eldvatni í Ásum er nú 2.122 m³/s og vatnshæðin 8,3 metrar. Gríðarlegt tjón er að verða á ræktuðu landi í Skaftárdal vegna Skaftárhlaups sem líklega er það stærsta í sögunni. Búið er að loka austasta hluta Skaftártunguvegar (208) vegna hlaupsins.
Frétt mbl.is: Gríðarlegt tjón á landi
Auður segir að allt sé að fara í bál og brand í Skaftárdal. Í gær flæddi yfir varnargarð nálægt Búlandi og fór vegurinn í dalnum í sundur. Inni í Skaftárdal standa tvær gamlar brýr og hefur áin orðin sífellt aðgangsharðari eftir því sem líður á morguninn.
Útlit er fyrir að rennsli í Skaftá við Sveinstind hafi náð hámarki um kl. 2 í nótt, 2 október. Skv. síritandi vatnshæðarmæli þar var rennslið rétt tæpir 2100 m3/s í hámarkinu. Búast má við að raunverulegt rennsli hafi þó verið töluvert miklu meira þar sem mikið vatn rennur utan mælisviðs stöðvarinnar. Má jafnvel gera ráð fyrir að rennslið hafi orðið um 3000 m3/s.
Rennsli í Eldvatni við Ása er ennþá vaxandi og var það nú rétt fyrir kl. 11 um 2150 m3/s. Gera má ráð fyrir að rennsli þar nái hámarki fljótlega eftir hádegið. Mikið vatn rennur einnig víðsvegar út á hraunið og má búast við að þar flæði næstu daga.
Eystri brúin stendur ein og sér með vatnsflauminn allt í kringum sig og yfir sig líka, segir Auður. Í fyrrahaust var lagður ljósleiðari í gegnum brýrnar fyrir Neyðarlínuna upp í Snjóöldu. Kapallinn hangir í vatnsflaumnum og gæti gefið sig.
Auður og Pétur Davíð Sigurðsson, bændur á Búlandi í Skaftártungu, eru ekki tengd ljósleiðaranum.„Þeir fengu að leggja hann þarna í gegnum brýrnar, það er aldeilis að koma í bakið á þeim núna,“ segir Auður.
Frétt mbl.is: Hlaupið hrifsar til sín landið
Eystri brúin er verr stödd en sú vestari. „Vestari brúin er þannig að vesturstöpullinn er að verða ansi smár, þetta er auðvitað bara steypt á móberg, þetta eru gamlar brýr. Það kvarnast fljótt úr honum og það er farið að flæða alveg upp að brúaropinu vestanverðu,“ segir hún.
Vatn er farið að flæða yfir veginn við Hvamm og er vatnshæðin um einn metri. Þá nær vatnið inn á land á Búlandi. „Það er farið að flæða um túnin hjá okkur, ekki upp á túnin en farið að brjóta á landi, gríðarlega,“ segir Auður. Aðspurð segir hún alltaf tjón að missa beitarlönd og ræktuð lönd. Ekki sé auðvelt að rækta upp nýtt land á þessu svæði.
„Áin er búin að breiða úr sér alveg frá Búlandi og yfir að Árheiði. Þar rennur hún nánast yfir allt, það eru örfá sker sem standa upp úr,“ segir Auður en þetta er svæðið sem áin rennur um áður en hún skiptist í tvo ála, Eldvatn og Skaftá sem rennur áfram að Kirkjubæjarklaustri.
„Áin er orðin svört og þykk og maður sér þar sem er að lóna upp í kring, þar liggur drullan eftir,“ segir Auður. Hún segir að mikil læti séu í ánni en íbúar á Búlandi heyri þó ekki í henni við bæinn. „Ef þú stendur við hana eru þetta rosalegar hamfarir.“
Hér að neðan er myndskeið sem Auður tók af hlaupinu í morgun.