Berlínarmúrinn afhjúpaður við Höfða

Tekið var formlega við hluta úr Berlínamúrnum við Höfða í …
Tekið var formlega við hluta úr Berlínamúrnum við Höfða í dag. Mynd/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók formlega við hluta úr Berlínarmúrnum við Höfða í dag. Um er að ræða gjöf frá listamiðstöðinni Neu West Berlin í Berlín. Dagur þýskrar einingar (Tag der Deutschen Einheit), 3. október, er þjóðhátíðardagur Þýskalands en í ár er þann dag jafnframt haldið upp á 25 ára afmæli endursameiningar Þýskalands.

Viðstaddir viðburðinn voru Tim Renner ráðuneytisstjóri menningar í Berlín, Herbert Beck sendiherra Þýskalands á Íslandi, fulltrúar listamiðstöðvarinnar í Berlín og fulltrúar Samskipa sem sáu um flutninginn frá Þýskalandi til Íslands.

Höfði skipar sess í sögunni um kalda stríðið og því …
Höfði skipar sess í sögunni um kalda stríðið og því þykir við hæfi að verkið sé þar. Mynd/Eggert Jóhannesson

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að um veglega gjöf sé að ræða sem er hluti heimssögulegra viðburða og hlaðin merkingu. Þá þykir við hæfi að setja verkið upp við Höfða af sögulegum ástæðum enda hefur það aðdráttarafl í sjálfu sér og hægt að tengja það leiðtogafundinum árið 1986, sem talinn er meðal þeirra lykilviðburða er mörkuðu upphafið að endalokum Kalda stríðsins.

Sá hluti Berlínarmúrsins sem um ræðir er um 4 tonn að þyngd en viðlíka verk hafa verið gefin víða um heim - meðal annars eru vegghlutar staðsettir við Wende Museum í Los Angeles, við Aspen Art Museum í Colorado, við Imperial War Museum í London og við Ronald Reagan bókasafnið í Simi Valley í Kaliforníu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka