Gefur út plötu með Meisturum dauðans

Þórarinn Þeyr Rúnarsson er 11 ára trommuleikari hljómsveitarinnar Meistarar Dauðans. Hljómsveitin hefur tekið upp sína fyrstu plötu sem væntanleg er í verslanir á næstu vikum. Þeir æfa sem óðir í bílskúr í Hlíðunum og semja sína tónlist sjálfir.

Barnablað Morgunblaðsins forvitnast betur um þennan unga trommuleikara.

Af hverju ákváðuð þið að stofna hljómsveit?
Við vorum í hljómsveit áður en hún hætti. Svo fundum við nýjan bassaleikara sem var rosa góður þannig að við ákváðum að vera með hljómsveit, þetta er svo gaman. Við erum búnir að spila saman í fjögur ár.

Hverjir eru í hljómsveitinni?
Ég, Ásþór Loki Rúnarsson bróðir minn og Albert Elías Arason vinur okkar. Ásþór er 16 ára og Albert er 15 ára. Albert er sonur vinar hans pabba. Við heyrðum Albert allt í einu vera að æfa sig heima og ákváðum að fá hann til liðs við okkur.
Árið 2012 komu inn tveir aðrir meðlimir en við ákváðum svo að hafa það aðra hljómsveit og halda áfram þrír upprunalegu meðlimirnir í Meisturum dauðans.

Æfið þið oft?
Já, frekar oft og mest fyrir tónleika. Við bara hringjum okkur saman og æfum niðrí bílskúr.

Hvernig er að vera með bróður sínum í hljómsveit?
Það er mjög þægilegt. Við getum bara farið niður í bílskúr hvenær sem við viljum.
Hafið þið komið fram einhversstaðar?
Já, við höfum t.d. spilað á Samfés og í Hörpunni. Ég get ekki talið það allt upp. Við höfum komið ansi víða fram. Við höfum líka spilað á jólaballi í skólanum okkar.

Ertu ekkert stressaður að koma fram?
Það var smá stress fyrst en svo fer það bara.

Ert þú að læra tónlist?
Já, ég er í FÍH. Ég byrjaði í fyrra í trommutímum.
Aldurstakmarkið var 15 ára en ég komst samt inn af því ég er búinn að æfa mig svo mikið.

Áttu trommusett?
Já, ég á trommusett af gerðinni Gretsch Maple New Classic. Það er perluhvítt á litinn og mjög gott sett.

Hvernig tónlist spilið þið?
Mest rokk og þungarokk. Síðan spilum við Ásþór stundum jazz.

Þið semjið sjálfir tónlistina?
Við spilum oftast okkar tónlist á tónleikum en stundum tökum við lög eftir aðra. Það er oftast þannig að Ásþór bróðir finnur eitthvert gítarriff og svo búum við Albert til trommutakt og bassalínu undir. Stundum byrja ég á lögum sem Ásþór klárar eins og til dæmis Skrímslið í garðinum og svo lag sem við köllum Kaya.
Á nýju plötunni verða bara frumsamin lög, alls tíu. Við erum líka byrjaðir á fimm nýjum lögum sem gætu komið á næstu plötu.

Hvernig viðbrögð hafið þið fengið?
Fólki finnst þetta bara rosa flott.

Eru einhverjir fleiri sem verða með ykkur á plötunni?
Sko, við þrír spilum á öll hljóðfæri en við fáum til okkar gestasöngvara t.d. Stebba Jak úr Dimmu, Stefaníu Svavarsdóttur, Esther Jökuls, Jónas Sigurðsson og Magna. Það var virkilega gaman að fá þau með okkur.

Einhverjir útgáfutónleikar?
Já, við ætlum að hafa útgáfutónleika og selja og árita diskinn. Það verður auglýst nánar síðar. Mögulega verða þeir á Húrra.

Þið hafið verið að safna fyrir plötunni?
Já, við höfum verið að safna á netinu á síðu sem heitir Karolina Fund.
Þar var hægt að styrkja og ráða hvað margar evrur maður vill setja í þetta. Ef við myndum ná fyrsta takmarkinu þá fengu allir stafrænt eintak en við náðum öðru takmarkinu þannig að við munum búa til plötuna sjálfa með coveri og öllu. Söfnuninni er lokið núna. Það var rosa gaman að sjá söfnunina fara yfir 100%. Það hafa milli 100 og 200 manns lagt söfnun­inni lið þannig að það eiga þónokkrir von á plötu í hendurnar.
Við erum búnir að taka allt upp og nú fer þetta bara í mix og fjölföldun.

Af hverju heitir hljómsveitin Meistarar Dauðans?
Árið 2011 tókum við þátt í Hæfileikakeppni Íslands og þurftum að finna nafn en fundum ekkert. Þá skráðum við okkur bara til leiks sem Meistarar dauðans og það hefur haldist síðan. Þetta þarf ekki endilega að þýða meistarar yfir dauðanum. Getur líka þýtt bara rosalegir meistarar. Þannig hugsuðum við það að minnsta kosti.

Hafið þið tekið þátt í einhverjum keppnum?
Já, við höfum tekið þátt í Ísland Got Talent og biðum þar í 12 tíma eftir að fá að spila. Tókum þátt í hæfileikakeppni Íslands eins og ég sagði áðan. Við höfum líka tekið þátt í Tónabær rokkar sem er á vegum félagsmiðstöðvanna. Svo vorum við í Hörpunni um árið á Tónsköpunarverðlaunum barnamenningarsjóðs. Þar fengum við Jónas Sigurðsson með okkur í lið með lagið okkar, Sálfræðingur dauðans. Það lag verður einmitt á plötunni okkar.

Hvað er framundan hjá hljómsveitinni?
Við erum að fara að spila á Rokkjötnum í desember og munum við opna tónleikana. Tónleikarnir fara fram í Vodafone-höllinni og fram koma t.d. Dimma, The Vintage Caravan og Mastodon. Það verður svakalega gaman.

Hvar er hægt að fylgjast með ykkur?
Á Facebook og Youtube. Endilega tékkið á því.
Ertu í einhverjum fleiri hljómsveitum?
Já, ég er í einni hljómsveit sem eru bara stelpur í. Reyndar var að bætast við einn hljómborðs­leikari sem er strákur. Þetta er svona samspilshljómsveit út frá tónlistarskólanum og við æfum einu sinni í viku.

Einhver fleiri áhugamál?
Já, borðspil enda mjög gaman að spinna upp sín eigin ævintýri. Svo er það júdó sem ég æfi þrisvar í viku. Ég æfi hjá Júdófélagi Reykjavíkur hjá Bjarna Friðrikssyni ólympíuhetju.

Hvað stendur uppúr í júdóinu?
Ég er tvöfaldur Íslandsmeistari í júdó. Sá sem ég hafði mestar áhyggjur af því að vinna er að æfa með mér. Hann hafði oft unnið mig en ég vann hann á Íslandsmótinu.

Hvað er svona skemmtilegt við júdó?
Eiginlega bara allt. Gaman að reyna að ná tökum á andstæðingnum og trufla hann. Gaman að læra ný brögð og svo er auðvitað skemmtilegast að vinna.

Þú ert líka að skrifa bók?
Já, ég er búinn að skrifa eina bók sem heitir Börn Digraskógar og er byrjaður á næstu. Ásþór byrjaði fyrir nokkru að skrifa bækur og ég fylgdi í kjölfarið. Við höfum skapað okkar eigin heim. Maður þarf að vera góður í stafsetningu og íslensku. Ég er að skrifa um álf sem heitir Melana og hans ævintýri. Bækurnar eru aðallega hugsaðar sem jólagjafir fyrir fjölskyldumeðlimi en við höfum alltaf prentað dáldið meira af upplagi.

Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?
Mig langar að verða flugmaður, smiður, trommari, júdómaður, rithöfundur og bakari. Svo langar mig aldrei að hætta í hljómsveitinni okkar.

Einhver uppáhalds hljómsveit?
Já, Led Zeppelin. Við strákarnir í hljómsveitinni fílum líka allir Metallica og Iron Maiden. Og uppáhalds trommuleikarinn minn er John Bonham. Hann er kannski ekki sá tæknilegasti en hann gerir svo flotta takta og góð lög.

Þessi ungi trommuleikari er í skemmtilegu viðtali við Barnablaðið um helgina. Hann er í hljómsveitinni Meistarar dauðans en þeir eru gefa út sína fyrstu plötu á næstu vikum.

Posted by Barnablaðið on 2. október 2015
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert