Hvaða þýða bókstafseinkunnir

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. Árni Sæberg

„Gagnrýni á að meiri tíma hefði þurft í innleiðingu á nýju námsmati að baki nýrri einkunnagjöf við lok grunnskóla kemur mér satt að segja mjög á óvart. Þetta hefur legið fyrir í fjögur ár, þegar grunnurinn að breytingum á námsmati, bókstafseinkunnum og nýju matskerfi var lagður með nýrri aðalnámskrá grunnskóla árið 2011. Innleiðingarferlið hófst þá strax með kynningum og fundum um allt land fyrir foreldra, kennara og skólastjórnendur og hefur staðið síðan,“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. „Ég verð að segja að það kemur mér á óvart að menn séu að vakna núna upp við það að þetta sé raunveruleikinn þegar þetta hefur legið lengi fyrir og verið kynnt á alla kanta og með margvíslegu móti.“

Staða innleiðingar óviðunandi

Lokaeinkunnir 10. bekkinga næsta vor verða í bókstöfum og hæfniviðmið verða höfð að leiðarljósi við einkunnagjöf. Fyrirkomulagið hefur staðið til í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 þar sem grunnurinn að þeim var lagður en breytingarnar verða innleiddar nú í vetur og þróaðar að fullu. Breytingarferlið og hvernig staðið hefur verið að því hefur verið gagnrýnt og sumir telja að skólakerfið hefði í heild þurft lengri tíma til að aðlagast algerlega nýrri hugsun að baki því að gefa einkunnir í grunnskólum.

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út um helgina er rætt við kennara og skólastjórnendur um stöðu mál en í bókun Félags grunnskólakennara, Kennarafélags Reykjavíkur og Skólastjórafélags Reykjavíkur á fundi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur fyrir um viku stendur meðal annars að það sé áhyggjuefni að verið sé að innleiða allt á sama tíma; nýja námskrá í skólum landsins, nýtt vinnumat grunnskólakennara og einnig breyta einkunnagjöf nemenda. Staða við innleiðingu á nýju lokamati sé óviðunandi.

Hefðum þurft meiri tíma

Formaður Skólastjórafélags Reykjavíkur, Svanhildur María Ólafsdóttir, segir ekki sé spurning að skólafélagið hefði þurft meiri tíma.

„Það eru til dæmis bara fyrst núna að koma fram hugmyndir um rafrænt skírteini og vefur um námsmatið; um þessi hæfniviðmið og hæfnieinkunn. Þannig að það er ekki seinna vænna en að fara í að kynna það frekar. Við óskuðum eftir því að þessar upplýsingar kæmu fyrr en þær gerðu það ekki og þá verðum við bara að bretta upp ermarnar og vinna í þessu það sem eftir er af þessum vetri. Ég veit að Menntamálastofnun ætlar að kalla til hóp af kennurum, stjórnendum og hagsmunaaðilum til að skoða málið betur og fara í það og skoða hvað er hægt að gera á þessu ári. En auðvitað hefðum við þurft meiri tíma, það er ekki spurning. Það þarf að fara í markvissa kynningu og fræðslu til skólastjóra og kennara. Þetta er ekki bara spurning um að verið sé að breyta tölum í bókstafi; þetta er ný hugsun í námsmati,“ segir Svanhildur María.

Nýtt námsmat hefur líka talsvert verið gagnrýnt en grunnhugmyndin á bak við nýja aðalnámskrá fyrir grunnskóla er að beina athyglinni að hæfni nemendanna.

Þekking sniðgengin

Fyrrverandi skólastjóri Réttarholtsskóla, Hilmar Hilmarsson segir allt of stór skref í að sniðganga lýsingu á þekkingaratriðum hafa verið tekin. „Ennfremur tel ég mörg af hæfniviðmiðum námskrárinnar allt of háleit. Þar að auki virðast mér matsviðmið einkunnanna vera of lík og grunar að erfitt geti orðið fyrir kennara að úrskurða af hverju til dæmis eigi að gefa B en ekki A,“ segir Hilmar.

„Útfærslan á annars góðri hugmynd; að leggja rækt við það hvernig nemendur geti nýtt sér þekkingu sína, dregið ályktanir, rökstutt mál sitt, og svo framvegis; er ekki nógu góð í þessari námskrá. Í fyrsta lagi finnst mér hæfniviðmiðin ganga allt of langt í að sniðganga þekkingu og hugtök og vitneskja sem menn eiga að kunna skil á er ekki nægilega vel skilgreind. Ég er ekki að tala um að þetta hefði átt vera eins og í gömlu námskránni en hér er gengið mun lengra en gert er til dæmis í sænsku og finnsku námskránum. Taka má samfélagsfræðina sem dæmi þar sem ákveðnir meginþættir í sögu Finnlands eru sérstaklega tíndir til. Í íslensku námskránni er talað mjög óskýrt í þessum efnum; landnámið, sjálfstæðisbaráttan og fleira; það er hvergi minnst á það. Þannig að það er engin trygging fyrir því að það verði samræmi í þekkingu milli nemenda á veigamiklum atriðum.“

Markmið sem væru eðlileg fyrir háskólanám

Í sama streng tekur Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við kennaradeild Háskóla Íslands. „Kröfur í mörgum námsviðum eru í allt of mörgum atriðum fullkomlega óraunhæfar. Og ef það á að leggja þetta til grundvallar sé ég ekki hvernig þetta gengur upp. Þetta eru einfaldlega of háleit markmið í allt of mörgum tilvikum. Ég hef stundum gantast með það að þetta séu markmið sem eðlilegt væri að setja í háskólanámi,“ segir Ingvar sem jafnframt ekki hafa fengið fullnægjandi skýringar á og rök fyrir því hvers vegna það var talið nauðsynlegt að skipta út tölustöfum fyrir bókstafi.

„Og ég held raunar að ef menn vilji þá sé auðvelt að snúa því við. Ég sé raunar ekki hvaða máli það skiptir - hvaða tákn er notað sem lokaniðurstaða. Og mér finnst skipta máli að það sé ekki hyldýpi skapað milli einkunnakerfis í grunn- og framhaldsskóla eins og nú á að gera. Nú á að gefa einkunnir í bókstöfum í grunnskólum ef þetta gengur eftir en tölustafi aftur í framhaldsskólum og háskólum. Það er einfaldara fyrir alla, almenning og foreldra, til að skilja hvað hlutirnir tákna að það sé ekki verið að hafa viðmið eitt á einu stigi og allt annað á öðru.“

Illugi segir gagnrýni á einstök hæfniviðmið alveg réttmæt. „Sumt er orðað þannig að það má setja spurningarmerki við það, en skólar hafa líka frelsi til að aðlaga aðalnámskrána að sínum þörfum,“ segir Illugi.

Meira frelsi kennara

„Vissulega er þekkingin mikilvæg og kröfur um hana eru líka hluti af námskrá. En fagfólk eins og kennarar þarf ekki nákvæma upptalningu á einstökum þekkingaratriðum sem nemendur eigi að kunna. Námskráin eins og hún er núna gefur þeim meira frelsi til að þróa kennsluna með sínum áherslum til að koma til móts við einstaklinginn og skila honum þannig áfram að hann sé tilbúinn til að taka næstu skref í lífinu. Nemendur verða metnir á fjölbreyttari hátt en áður. Og tilgangurinn með þessum breytingum er að koma til móts við breyttan veruleika sem ungt fólk stendur frammi fyrir. Það er staðreynd að 30 prósent grunnskólanemenda hafa ekki verið hæf til að takast á við framhaldsnám þegar úr grunnskóla er komið.“

Ítarlega er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Svanhildur María Ólafsdóttir.
Svanhildur María Ólafsdóttir.
Hilmar Hilmarsson fyrverandi skólastjóri
Hilmar Hilmarsson fyrverandi skólastjóri Árni Sæberg
Ingvar Sigurgeirsson.
Ingvar Sigurgeirsson.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert