Óskiljanlegt og skelfilegt

Helena Jónsdóttir sálfræðingur hefur undanfarna mánuði stafað á sjúkrahúsi Lækna án landamæra í Kunduz í Afganistan. Í nótt voru gerðar loftárásir á sjúkrahúsið og er mannfallið mikið.

 Helena fór frá Kunduz síðdegis á mánudag eftir að bardagar höfðu geisað í borginni í hálfan sólarhring. Talibanar náðu hluta Kunduz á sitt vald á mánudag og nokkrum klukkustundum síðar hóf herinn árás á vígi talibana í borginni til þess að reyna að ná yfirráðum í borginni á nýjan leik.

Að sögn Helenu vöknuðu þau við óvenju harðar árásir í borginni aðfararnótt mánudags. Strax var farið í að tryggja öryggi starfsfólks samtakanna Lækna án landamæra og aðrir en læknar og aðrir þeir sem koma að því að bjarga lífum voru sendir í burtu.

Heilbrigðisþjónustan lömuð

Frá þeim tíma hafa læknar á sjúkrahúsinu barist við að bjarga því sem bjargað varð en um 400 manns hafa leitað til sjúkrahússins undanfarna daga. Önnur sjúkrahús, það er ríkisspítalinn og heilbrigðisþjónusta í einkaeigu, hafa lamast að mestu og eftir árásina í nótt má segja að um milljóna borg sé án nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu í miðjum átökum, segir Helena.

„Þetta er það alvarlegasta því spítali Lækna án landamæra hefur verið eini spítalinn sem fólk hefur getað leitað til og eins og staðan er núna er ekki verið að taka við nýjum sjúklingum heldur reynt að bjarga þeim sem þegar eru á sjúkrahúsinu,“ segir Helena.

Unnið dag og nótt við að reyna bjarga mannslífum

Aðalbygging sjúkrahússins var sprengd þannig að skurðstofur og bráðadeildin eru óstarfhæfar. „Við vitum ekki hvað gerist en eins og staðan er í dag þá eru íbúar Kunduz án læknisaðstoðar sem er skelfilegt því íbúar Kunduz hafa búið við skelfilegar aðstæður árum saman,“ segir Helena.

Hún segir að spítalinn hafi frá því á mánudag verið rekinn á um þriðjungi þess starfsfólks sem þar starfar venjulega og dag og nótt var reynt að bjarga mannslífum. Aðgerðir eru gerðar hvar sem hægt er að stíga niður fæti, á skrifstofum og hvar sem er í húsnæðinu sem var að miklu leyti lagt í rúst í nótt, segir Helena.

Samkvæmt upplýsingum frá Læknum án landamæra var afganska hernum strax á mánudag veittar upplýsingar um GPS hnit sjúkrahússins og að sögn Helenu var því nokkrum sinnum komið á framfæri við ólíka aðila innan efstu laga hersins eftir það.

„Um leið og starfsfólk spítalans áttar sig á því í nótt að svo virðist sem loftárásirnar beinist gegn sjúkrahúsinu er haft samband við yfirmenn í afganska hernum í Kabúl og Bandaríkjaher í Washington en þrátt fyrir það héldu loftárásirnar áfram í þrjátíu mínútur eftir tilkynninguna,“ segir Helena.

„Við skiljum ekki hvernig þetta hefur getað gerst og vitum í sjálfu sér lítið þar sem við höfum ekki fengið neinar skýringar en höfum leitað eftir þeim,“ segir Helena.

Helena hefur verið í sambandi við starfsfélaga sína í Kunduz í nótt og í morgun og það sem er vitað núna er að níu starfsmenn Lækna án landamæra í Kunduz létust í árásinni og að 37 eru mjög alvarlega slasaðir. Óttast er að talan eigi eftir að hækka, segir Helena sem er á heimleið þar sem verkefni hennar var að ljúka í Afganistan en hún hefur starfað þar frá því í byrjun árs. 

Mikið mannfall í árás Bandaríkjahers

Gerðu loftárás á læknamiðstöð

Helena Jónsdóttir sálfræðingur.
Helena Jónsdóttir sálfræðingur. mbl.is/Golli
Starfsfólk sjúkrahússins í Kunduz að störfum
Starfsfólk sjúkrahússins í Kunduz að störfum AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert