Minnihlutinn í allsherjar- og menntamálanefnd hefur óskað eftir fundi í nefndinni sem allra fyrst með innanríkisráðherra, Ólöfu Nordal.
Óskað er eftir því að hún skýri nefndinni frá því hvernig hún hyggist fylgja eftir orðum sínum í þinginu þann 17. september sl. þegar ráðherra sagði orðrétt: „Grikkland er ekki talið öruggt land. Það á einnig við um Ítalíu og Ungverjaland, þau eru til viðbótar ekki talin örugg lönd. Það er ekki óhætt að senda fólk til baka þangað." Mikilvægt er að ráðherra gefi afdráttarlausa yfirlýsingu sem allra fyrst svo fólk sem á á hættu að verða sent til baka til þessara ríkja þurfi ekki lengur að óttast um afdrif sín?,“ segir í tilkynningu frá minnihlutanum í nefndinni.