Enginn í New York misskildi Sigmund

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Styrmir Kári

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að enginn misskilningur hefði verið á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um ræðu hans um loftlagsmál. Hann segir að allir hafi gert sér grein fyrir því hvað átt væri við með svokölluðu 40% markmiði þegar hann ræddi um áætlanir um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Þetta kom fram í svari Sigmundar við fyrirspurn þingkonunnar Katrínar Jakobsdóttur á þingfundi í dag. Katrín spurði ráðherrann út í ræðuna og sérstaklega hvað hann væri að meina þegar hann lýsti markmiðum Íslands um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40%.

Segir formanninn kjósa að gera sér upp misskilning

Sigmundur sagði í svari sínu til Katrínar það ljóst að átt væri við sameiginlegt markmið Íslands og annarra EES-landa um að draga úr losun þessara gróðurhúsalofttegunda um sem nemur 40% fyrir árið 2030. „Það var kynnt hér rækilega 30. júní á þessu ári, ef ég man rétt, að Ísland hygðist taka þátt í þessu og þess vegna var orðalagið með þeim hætti að vísa sérstaklega í það að Ísland hefði nýlega lýst því yfir að það ætlaði að taka þátt í þessu 40% markmiði. Þetta misskildi enginn, að ég tel, í New York þó að menn hafi séð tækifæri í því að gera sér upp misskilning hér heima, en það virðist reyndar vera orðinn fastur liður,“ sagði Sigmundur og vísaði til formanns Náttúruverndunarsamtaka Íslands, Árna Finnssonar en að sögn ráðherrans á formaðurinn að hafa kosið að gera sér upp misskilning úr öðru máli á síðasta ári „á svipaðan hátt og í þessu tilviki,“ eins og Sigmundur orðaði það.

Brýnt að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis

Katrín spurði forsætisráðherrann einnig hvernig Íslendingar ætli að þessum markmiðum.

„Það liggur fyrir, hvort sem við erum ein á báti eða í samstarfi við aðra til að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna, að við munum þurfa að fara í umtalsverðar aðgerðir. Við munum þurfa að fara í umtalsverðar breytingar. Eitt af því sem hefur verið rætt eru orkuskipti í samgöngum sem ég nefndi hér áðan. Við höfum rætt um stóriðjuna. Það hefur margt verið nefnt til sögunnar,“ sagði Katrín á þingfundinum.

Sigmundur svaraði og sagði það brýnt að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis eins og kostur er eða draga úr aukningu á notkun þess. Einnig þarf að framleiða meira af endurnýjanlegri grænni orku.

„Þar stendur engin þjóð sig betur en Íslendingar og þess vegna hlusta menn þegar Íslendingar ræða þessi mál. Þar af leiðandi tel ég að við getum haft mjög gott innlegg í París, til viðbótar við það að taka þátt í þessu regnhlífamarkmiði, því að á sviði umhverfismála er engin þjóð sem stenst Íslendingum snúning. Við getum þar af leiðandi verið góð fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir heims,“ sagði Sigmundur. Hann bætti við að eitt af stóru skrefunum sem biðu væri að skipta um orku í samgöngum.

„Við byrjum þá að sjálfsögðu á bifreiðum, en eins og dæmi er um er ekki langt í að hægt verði að ráðast í sams konar átak í skipum og jafnvel í flugvélum.“

Fyrri fréttir mbl.is:

Ekki innistæða fyrir yfirlýsingunni

40% með Evr­ópu­sam­band­inu

„Af­drátt­ar­laus­ari um minni los­un“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka