Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi í síðasta mánuði karlmann í hálfs árs skilorðsbundið fangelsi fyrir hegningarlagabrot gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni og brot gegn valdstjórninni. Maðurinn birti m.a. nektarmyndir af konunni á Facebook.
Ríkissaksóknari ákærði manninn í júlí sl. fyrir brot gegn fyrrverandi maka og brot gegn valdstjórinni. Fram kom, að hann hefði frá 29. júní til 1. júlí reynt að neyða konuna til síma- og tölvusamskipta við sig með því að hóta að birta opinberlega kynferðislegt myndefni af henni á Facebook, eða myndefni af henni naktri, sem maðurinn var með í vörslum sínum.
Þá fór hann án heimildar inn á Facebooksíðu konunnar og breytt lykilorði hennar, þar sem meðal annars var að finna tölvupósta, ljósmyndir og ýmsar persónulegar upplýsingar um samskipti við aðra notendur á sömu samskiptasíðu auk persónuauðkenna konunnar. Þetta varð til þess aðgangur konunnar að samskiptasíðunni lokaðist um nokkurt skeið.
Þá var hann ákærður fyrir brot gegn blygðunarsemi og stórfelldar ærumeiðingar með því að hafa birt myndefni á Facebooksíðu konunnar, með því að nota hennar notandaaðgang og auðkenni, sem sýndi hana fáklædda eða nakta. Með því hefði hann sært blygðunarkennd konunnar, móðgað hana og smánað opinberlega.
Í öðrum lið ákærunnar var maðurinn ákærður fyrir að hafa bitið í upphandlegg lögreglumanns sem var við skyldustörf. Einnig fyrir vopnalagabrot með því að hafa geymt skotvopn, tvo riffla og eina haglabyssu, og skotfæri, 254 riffilskot og 6 haglaskot, óaðskilin og í ólæstum hirslum í herbergjum á heimili sínu.
Konan krafðist þess að maðurinn myndi greiða henni þrjár milljónir króna í miskabætur.
Í dómi héraðsdóms, sem féll 16. september sl., viðurkenndi maðurinn þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.
Dómstóllinn segir að brot mannsins hafi verið gróf og niðurlægjandi gagnvart konunni. Með því að hafa náð umráðum yfir Facebooksíðu konunnar, hafi hann misnotað þá stöðu gróflega bæði með því hóta henni myndbirtingu væri hún ekki síma- eða tölvusamband við hann og birti á Facebooksíðu hennar, án hennar heimildar, myndir af henni, m.a. nakinni.
Við ákvörðun refsingar mannsins var litið til þess, honum til refsimildunar, að hann játaði brot sín skýlaust. Til refsiþyngingar var litið til þess að brot væru gróf og niðurlægjandi sem fyrr segir.
Þá var litið til alvarleika brotsins gagnvart lögreglumanninum vegna þeirra áverka sem hann hlaut og eðli brotsins.
Dómari tekur fram, að maðurinn hafi framið öll brotin á þriggja daga tímabili þegar hann var undir áhrifum áfengis.
„Þar sem ákærði hefur nú farið í áfengismeðferð, hann kveðst vera hættur neyslu áfengis og hefur ekki áður verið sakfelldur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið,“ segir í dómnum.
Þá gerir dómstóllinn 81 ljósmynd og 11 hreyfimyndir upptækar sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.
Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða konunni 300.000 krónur í skaðabætur.