Forseti þurfi meirihluta atkvæða

mbl.is/Eggert

Lagt er til að forseti verði kjörinn með meira afgerandi hætti en verið hefur þannig að ef enginn frambjóðandi til embættis forseta Íslands fær meirihluta gildra atkvæða í kosningu skuli kosið aftur milli þeirra tveggja frambjóðenda sem flest atkvæði fengu. Sá frambjóðandi sem flest fær atkvæði í seinni umferðinni verður rétt kjörinn forseti.

Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpi til stjórnarskrárbreytinga sem þingflokkur Bjartrar framtíðar hefur lagt fram á Alþingi. Ennfremur segir að það sé mat flutningsmanna að með þessari aðferð fengist skýrari og meira afgerandi niðurstaða í forsetakosningum sem endurspeglaði betur raunverulegan vilja kjósenda.

Fram kemur að með núverandi fyrirkomulagi, þar sem aðeins þarf fleiri atkvæði en mótframbjóðendur, geti úrslit orðið þannig „að rétt kjörinn forseti njóti hvorki stuðnings meirihluta kjósenda né að hann hljóti meiri hluta gildra atkvæða. Séu margir í framboði, og ef atkvæði dreifast nokkuð jafnt á milli frambjóðenda, kann rétt kjörinn forseti að hafa lítinn stuðning á bak við sig.“

Bent er á að það fyrirkomulag sem í gildi er í dag sé einstætt í lýðveldisríkjum með þjóðkjörinn forseta. Í öllum öðrum ríkjum sé ávallt gert ráð fyrir að meirihluti gildra atkvæða standi að baki rétt kjörnum forseta. Sömuleiðis er vakin athygli á því að forsetar hafi iðulega verið kjörnir hér á landi með minna en helmingi gildra atkvæða og oftar en einu sinni hafi verið mjótt á mununum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert