Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallavina, segir að setja verði hjólreiðaáætlun borgarinnar fyrir árin 2015 til 2020 á bið þar sem ekki eru til fjármunir til að seinna lögbundinni grunnþjónustu borgarinnar. Þá segir hún töluverða áhættu fylgja hjólreiðum í borginni vegna mengunar.
Nú stendur yfir umræða um hjólreiðaáætlun borgarinnar á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur.
Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar, hóf umræðuna með kynningu á áætluninni. Steig Sveinbjörg næst í pontu. Rifjaði hún upp að hún hefði látið bóka á fundi borgarstjórar 7. október á síðasta ári að hún teldi ekki þörf á að fara í gerð hjólaáætlunar þar sem markmiðum þeirrar sem lögð var fram til ársins 2015 hafði ekki verið náð. Því ætti ekki að eyða fjármunum og tíma í vinnu annarar áætlunar.
Sagði Sveinbjörg að borgarstjórn stæði nú uppi með ágætis plagg sem uppfylli að miklu leyti væntingar sem settar eru fram í aðalskipulagi borgarinnar. Vísaði hún næst í frétt sem birt var á mbl.is um helgina, þ.e að nýtt met hefði verið sett í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu í september en alls fóru rúmlega milljón ökutæki yfir þrjú mælisnið Vegagerðarinnar á einni viku.
Frétt mbl.is: Rúmlega milljón ökutæki á viku
Sagðist Sveinbjörg mjög hlynnt því að fólk hjóli en ekki væri alltaf hægt að treysta á að rokið feyki menguninni í burtu og því fylgi lífsstílnum töluverð áhætta vegna mengunar. Sagðist hún þó vilja hrósa þeim sem komu að vinnu áætlunarinnar.
Sveinbjörg sagði einnig að þó að þverpólitísk sátt væri um málið í borgarstjórn þyrfti að setja áætlunina og margar aðrar á bið eða seinka framkvæmd þeirra þar á meðan ekki næðist að sinna grunnþjónustu og almennilegu viðhaldi fasteigna, þar á meðal gatna í borginni, vegna skorts á fjármagni.
„Hjólreiðaáætlunin er falleg og vel unnin en peningarnir eru ekki til til að framfylgja henni. Við verðum að forgangsraða fjármunum í þágu grunnþjónustunnar,“ sagði Sveinbjörg.