Ísland í hnotskurn á Snæfellsnesi

Ljósmynd/Ma

Á ferðabloggsíðunni Stuck in Iceland birtist nýlega ítarleg umfjöllun, bæði í máli og stórkostlegum myndum, um Snæfellsnes. Ljósmyndarinn og heimshornaflakkarinn Martin Schulz er lesendum mbl.is vel kunnugur, bæði af umfjöllun hans og myndum af Breiðamerkursandi og af Kirkjufelli, staður sem er í sérstöku uppáhaldi hjá honum.

Frétt mbl.is: Breiðamerkursandur í myndum

Martin Shculz tók hvorttveggja myndirnar og skrifaði textann í þessari færslu á Stuck in Iceland. Hér birtist hluti umfjöllunar Matrin Schulz um Snæfellsnes, en umfjöllunina í heild, ásamt öllum þeim myndum sem hann birtir, má lesa á Stuck in Iceland með því að smella hér.

Frétt mbl.is: Er heillaður af Kirkjufelli

Í frásögninni sem birtist að þessu sinni á Stuck in Iceland segir Schulz frá því að hann hafi 14 sinnum komið til landsins og heillast upp á nýtt í hvert einasta skipti. „Ég hef heimsótt eins ólíka staði og hægt er að hugsa sér, allt frá hálendi Íslands, með sína hrjúfu fegurð, að köldum svæðum Vatnajökuls og að indælu Mývatni,“ skrifar Schulz.

„En einn er sá staður sem er sérstakur á Íslandi og ég hef heimsótt á öllum mínum ferðum. Hann er sagður vera „Ísland í hnotskurn“ því þar getur þú fundið allt það sem er einkennandi við Ísland á einum stað.“

Eldborg á Mýrum.
Eldborg á Mýrum. Ljósmynd/Martin Schulz

Með skrifum sínum og myndum býður hann lesendum Stuck in Iceland í ferð um Snæfellsnes á mismunandi árstíma.

„Eftir að hafa keyrt gegnum Borgarnes“ skrifar hann, eftir að hafa hrósað Blómasetrinu í Borgarnesi í hástert, „beygjum við inn veg 54 sem leiðir okkur á Snæfellsnes. Það fyrsta sem þú tekur eftir eru hraunbreiðurnar og loks Eldborg.“ Ljóst er af skrifum Martins að hann hugsar umfjöllun sína fyrir þá sem ekki eru innfæddir, því fjöldi Íslendinga er löngu hættur að taka eftir hvað jafnalgengur hlutur og hraunflákar eru í raun merkilegir.

Hann hvetur þá sem ferðast á Snæfellsnes að gera sér ferð að Búðum. Þar er ekki bara að finna yndislegt hótel, heldur einnig glæsilega kirkju sem stendur ein í grónu hrauninu. „Að sjá sólina koma upp fyrir ofan þessa litlu kirkju er mjög sérstakt,“ skrifar hann. „Ég var hérna með eiginkonu minni á brúðkaupsafmælinu okkar - það var frábært.“

Ljósmynd/Martin Schulz

Auk þess séu afskekktu fjörurnar við Búðir vel þess virði að skoða. „Ég hef oft horft á sólarupprásina á þessum einstaka stað og var aftur og aftur uppnuminn af því hversu fallegt landslagið getur orðið - hversu stórkostleg náttúran okkar er.

Stuttu áður en komið er að Arnarstapa þegar ekið er suður fyrir Snæfellsnes lýsir Martin því hvernig landslagið breiðir út arma sína þar sem Stapafell og toppurinn á Snæfellsjökli birtast. Gatklettur og hraunið við Arnarstapa er meðal þess sem fangar augu Martins. Hann segir Atlantshafið margbreytilegt eftir því hvort hann standi við það á hlýrri sumarnóttu eða á köldu vetrarkvöldi. Á sumrin sýnir hafið sínar blíðu hliðar en á veturna lemur hafið á klettunum.

Ljósmynd/Martin Schulz
Ljósmynd/Martin Schulz

Á leiðinni að þeim stað sem Martin lýsir sem þeim fallegasta á öllu nesinu segir hann nauðsynlegt að koma við á Fjöruhúsinu, litlu kaffihúsi á Hellnum. Lóndrangar séu svo annað sem allir verði að skoða. Þá sé nauðsynlegt að vara sig á kríunum við Rif ef maður hættir sér út úr bílnum.

Ljósmynd/Martin Schulz

Staðurinn sem Martin heldur svo mikið upp á er Kirkjufell. „Nafnið er til komið vegna þess að brattar fjallshlíðarnar minna á kirkjuskip,“ skrifar Martin. „Ég hef verið marga daga, kvöld og nætur við þetta fjall og nærliggjandi foss,“ eins og sjá má á myndunum sem hann birtir með umfjölluninni á Stuck in Iceland.

Umfjöllun Martin Schulz má lesa í heild, á ensku, á Stuck in Iceland.

Kirkjufell frá heldur óvanalegu sjónarhorni.
Kirkjufell frá heldur óvanalegu sjónarhorni. Ljósmynd/Martin Schulz
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert