Lokun blasir við skólanum

Gunnar Guðbjörnsson, annar skólastjóra Söngskóla Sigurðar Demetz.
Gunnar Guðbjörnsson, annar skólastjóra Söngskóla Sigurðar Demetz. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Gunnar Guðbjörnsson, annar skólastjóra Söngskóla Sigurðar Demetz í Reykjavík, segir að rekstur skólans sé kominn yfir þolmörk og honum verði loka um áramót að óbreyttu.

Öllum 28 kennurum skólans var sagt upp í lok september og taka uppsagnirnar gildi um áramót. Ákvörðun um framtíð skólans verður að liggja fyrir innan tveggja mánaða, að sögn Gunnars, en 90 nemendur stunda nám við skólann.

Gunnar segir að í töluvert langan tíma hafi verið skoðað hvernig haga skuli söngnámi og stjórnmálamenn hafi dregið lappirnar í þeirri vinnu. Ýmislegt hafi verið athugað en ekkert klárað. Samkomulag sveitarfélaganna og ríkisins frá 2011 um eflingu tónlistarnáms og jöfnunar á aðstöðu nemenda og ákveðna innspýtingu fjármagns frá ríkinu, sem hafi átt að gilda út 2014, hafi verið afleiðing af gjörðum Reykjavíkurborgar að hætta að vilja borga með framhaldsstigsnemendum í hljóðfæranámi og mið- og framhaldsstigsnemendum í söngnámi.

Flest sveitarfélög hafi tekið á móti fjármununum frá ríkinu, sett inn í tónlistaskólakerfið og greitt það sem upp á hefur vantað. Í Reykjavík séu einkareknir skólar sem hafi fengið áframsenda peninga, sem hafi farið í jöfnunarsjóð, í réttu hlutfalli við fjölda nemenda. Peningarnir hafi ekki dugað fyrir kennslukostnaðinum og þar standi hnífurinn í kúnni.

Söngskóli Sigurðar Demetz taki ekki afstöðu til deilunnar, því það sé ríkisins og sveitarfélaganna að ákveða sín á milli hvar þau dragi línuna með þennan kostnað. „Fólk sem er í stjórnmálum verður að hafa bak til þess að taka ákvarðanir,“ segir Gunnar og áréttar að framkoman gagnvart skólanum sé fyrir neðan allar hellur.

Gunnar segir að skólastjórar skólans, hann og Guðbjörg Sigurjónsdóttir, leggi áherslu á ábyrga fjármálastjórn. Þau hafi m.a. tekið að sér skúringar og öll skrifstofustörf. Ljóst sé að það halli gríðarðlega undan fæti um áramót, verði ekkert að gert. „Þetta er ekki áskapaður vandi heldur erum við sett í þennan vanda,“ segir hann og bendir á að lögum samkvæmt eigi Reykjavíkurborg að fjármagna námið, en góð rök séu fyrir því að ríkið eigi að borga fyrir nám á menntaskólastigi eða nám sem metið sé til eininga.

Skólinn bitbein

Gunnar segir að Reykjavík hafi boðið að greiða ákveðinn hluta af kostnaði í björgunarpakka í vor með því skilyrði að ríkið kæmi á móti en engin ákvörðun hafi verið tekin.

„Við erum bitbein, þar sem hvorugur vill gefa sig, en samt er þverpólitískur vilji fyrir því að þetta kerfi fái að lifa,“ segir Gunnar. Hann bætir við að í sumar hafi stjórnendur tónlistarskólanna í Reykjavík talið að ríkið yrði með í því að leysa málið og því hafi verið tekin ákvörðun um að halda skólastarfinu í Söngskóla Sigurðar Demetz áfram.

„Skilyrði fyrir samkomulaginu var samþykkt á Alþingi um flutning fjármagns milli sjóða hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og eftir að það hafðist í gegn töldum við að sátt um málið væri í höfn – að samþykkt Alþingis væri trygging á þátttöku ríkis. Það var ekki ljóst fyrr en í ágúst að ríkið ætlaði ekki að taka þátt í fjármögnun björgunarpakkans, þegar of seint var fyrir okkur að bregðast við. Okkur var því ómögulegt annað en halda áfram starfinu í haust og vona að menntamálaráðherra brygðist við með því að sækja um fjármagn til að taka þátt í lausninni enda miðuðu samkomulagstillögur að því að ríkið kæmi aðeins að fjármögnun 4. þreps nemenda sem lokið hafa framhaldsstigi í tónlistarnámi og þannig í raun vel skiljanlegt að sá hluti væri á hendi ríkis. Til að bjarga okkur í bili þarf aðeins samþykki ríkis fyrir þátttöku í björgunarpakkanum eins og borgin og skólarnir hafa kallað eftir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert