Kæra embætti lögreglustjóra

Lögreglustöðin Hverfisgötu
Lögreglustöðin Hverfisgötu Þórður Arnar Þórðarson

Samtökin ’78 ætla í dag að kæra ákvarðanir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til ríkissaksóknara en embætti lögreglustjóra vísaði nýverið  frá kæru samtakanna um hatursfull ummæli í garð hinsegin fólks. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Samtökunum ’78. 

„Samtökin ’78 gagnrýna harðlega þá ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 8. september 2015 um að vísa frá kærum samtakanna, sem lagðar voru fram hjá embættinu þann 27. apríl 2015. Ákvarðanirnar, sem allar eru stuttar og samhljóða, eru þess efnis að embættinu þyki ekki „grundvöllur til að hefja rannsókn á hinum meintu brotum“. 

Gagnrýni samtakanna byggist á að kærurnar varði ummæli sem látin voru falla á opinberum vettvangi og eiga það sameiginlegt að vera til þess fallin að hæðast að, smána eða jafnvel ógna hinsegin fólki sökum kynhneigðar þeirra eða kynvitundar. Samtökin ’78 telja að ummælin séu refsinæm í því ljósi, enda er það mat samtakanna að þau falli öll undir orðalag 233. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Samtökin ’78 telja að málsmeðferð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem felur í sér að kærunum er vísað frá án eiginlegrar rannsóknar, sé óvönduð. Ákvarðanir lögreglustjórans geti auk þess ekki byggst á málefnanlegum rökum og séu til þess fallnar að útiloka þá refsivernd sem fólgin er í 233. gr. a almennra hegningarlaga og er ætlað að ná til minnihlutahópa á borð við hinsegin fólk. Um leið sé útilokaður möguleikinn á því að innlendir dómstólar fái að eiga síðasta orðið um heimfærslu hinna kærðu ummæla undir títtnefnt lagákvæði almennra hegningarlaga. Samtökin telja með hliðsjón af því ótækt að lögreglustjóri beiti valdi sínu með þessum hætti.

Með það í huga og í samráði við lögmann samtakanna, Björgu Valgeirsdóttur hdl., hafa Samtökin ’78 tekið þá ákvörðun að kæra umræddar ákvarðanir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til ríkissaksóknara. Verður með kærunum farið fram á að ákvarðanir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu verði endurskoðaðar og að lagt verði fyrir embættið að taka málin til áframhaldandi meðferðar og þar með rannsóknar. Kærurnar verða afhentar ríkissaksóknara kl. 13, miðvikudaginn 7. október 2015, í húsnæði ríkissaksóknara við Hverfisgötu 6 í Reykjavík. 

Samtökin ’78 munu halda áfram áratuga baráttu sinni  fyrir mannvirðingu hinsegin fólks hér á landi. Samtökin eru því reiðubúin að lýsa því yfir hér með að endurskoði ríkissaksóknari ekki ákvörðun lögreglustjórans með fyrrgreindum hætti, verði réttmæti þeirrar ákvörðunar borin undir mannréttindadómstól Evrópu.“

Lögreglustöðin Hverfisgötu
Lögreglustöðin Hverfisgötu Þórður Arnar Þórðarson
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið kærð til …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið kærð til ríkissaksóknara af Samtökunum 78. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka