Þingmenn stjórnarandstöðunnar komu hver á fætur öðrum upp í ræðustól Alþingis í dag í umræðum um störf þingsins og gagnrýndu Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra harðlega fyrir að vera ekki viðstaddur umræður í þinginu og að verða illa eða alls ekki við beiðnum frá þingmönnum um sérstakar umræður um ákveðin mál.
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, gekk svo langt að kalla eftir því að forsætisráðherra væri víttur af forseta Alþingis fyrir framgöngu sína. Stjórnarandstæðingum var sýnilega mjög heitt í hamsi. Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði aðra ráðherra yfirleitt standa sig ágætlega í þessum efnum en svo virtist sem þessi framganga væri nær eingöngu bundin við forsætisráðherra.