„Engan tíma má missa“

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Reykjavíkurborg er tilbúin að leggja fram sinn hluta til þess að leysa bráðvanda tónlistarskólanna í borginni ef ríkið kemur á móti. Þetta kemur fram í bókun borgarráðs sem lögð var fram í morgun.

Þar kemur fram að samkomulag ríkisins, borgarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka tónlistarskóla í Reykjavík, um lausn á bráðavanda tónlistarskólanna, hafi verið í burðarliðnum í vor og falið í sér tillögu í tólf liðum þar sem Reykjavíkurborg var tilbúin að leggja fram 90 milljónir.  60 milljónir áttu að koma frá ríkinu og 30 milljónir áttu að koma úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga með lagabreytingu sem Alþingi samþykkti 30. júní.

Í bókuninni kemur fram að fulltrúar mennta- og menningarmálaráðherra og fjármálaráðherra hafi tekið fullan þátt í vinnu við undirbúning þessa samkomulags og unnu borgaryfirvöld minnisblað um málið um miðjan júní sem átti að leggja fyrir ríkisstjórn í sumar.

Borgarráð ítrekar það að borgin sé tilbúin að leggja fram sinn hluta. „Engan tíma má missa ef ekki á illa að fara fyrir þeim tónlistarskólum sem verst standa. Skorað er á ríkisstjórnina að koma að því með Reykjavíkurborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga að leysa þann vanda sem upp er kominn í þágu nemenda, forráðamanna þeirra og áframhaldandi öflugs tónlistarnáms í borginni,“ segir í bókun borgarráðs.

Fjárhagsstaða tónlistarskólanna í Reykjavík hefur lengi verið slæm. Í samtali við mbl.is í vikunni sagði Gunn­ar Guðbjörns­son, ann­ar skóla­stjóra Söng­skóla Sig­urðar Demetz í Reykja­vík að rekst­ur skól­ans væri kom­inn yfir þol­mörk og hon­um yrði lokað um ára­mót að óbreyttu.

Öllum 28 kenn­ur­um skól­ans var sagt upp í lok sept­em­ber og taka upp­sagn­irn­ar gildi um ára­mót.

Fyrri frétt mbl.is: Lokun blasir við skólanum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert