Fjármálaráðuneytið hvetur lögreglumenn til að hætta við fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir, sem ráðuneytið segir að séu ólögmætar, ella verði gripið til viðeigandi réttarúrræða. Það segist hafa fengið þær upplýsingar að fjöldi lögreglumanna hyggist tilkynna veikindi á morgun og aðfararnótt laugardags.
Þetta kemur fram í bréfi sem fjármálaráðuneytið hefur sent Landssambandi lögreglumanna (LL). Þar segir, að lögreglumenn hafi ennfremur í hyggju að tilkynna veikindi dagana 9., 10., 16., 27. og 28. október. Þá kemur einnig fram, að fyrirhugaðar aðgerðir séu liður í því að knýja á um gerð kjarasamnings LL við ríkið.
Fjármálaráðuneytið segir að ekki verði annað séð „en að fyrirhuguð veikindi lögreglumanna sé ólögmæt verkfallsaðgerð í þeim tilgangi að knýja á um bætt launakjör.“ Það tekur fram að það sé brot á lögum að tilkynna veikindi þegar ekki sé um slíkt að ræða.
Ráðuneytið skorar á LL að beita sér fyrir því að aðgerðunum verði hætt. „Að öðrum kosti mun ráðuneytið grípa til viðeigandi réttarúrræða. Þá vekur ráðuneytið athygli félagsins á því að það getur orðið ábyrgt vegna þess tjóns sem kann að hljótast af hinu ólögmætu aðgerðum.“
Landssamband lögreglumanna segir á vef félagsins að fjármálaráðuneytið hóti því lögsókn.
„Í bréfinu kemur fram að ráðuneytið líti svo á að hér sé um að ræða ólöglegar aðgerðir og vinnustöðvanir af hálfu félagsmanna LL og jafnframt lýsir ráðuneytið fullri ábyrgð á þessum aðgerðum á hendur LL. Þá kemur og fram í bréfinu að ráðuneytið muni, verði af þessum aðgerðum, leita allra lögmætra leiða, þ.m.t. að höfða mál á hendur LL til að koma í veg fyrir aðgerðirnar og / eða takmarka það tjón sem þessar ólögmætu aðgerðir kynnu að valda kæmu þær til framkvæmda,“ segir félagið.
Þá segir að aðgerðirnar sem ráðuneytið vísi til, séu ekki á neinn hátt undirbúnar af eða á byrgð LL.
„Þá hvetur LL félagsmenn sína, af augljósum ástæðum, til að fara að lögum í hvívetna í tengslum við þá kjaradeilu sem LL á í um þessar mundir við ríkisvaldið,“ segir ennfremur.
Í lok bréfsins frá ráðuneytinu segir: „Ráðuneytið lýsir fullri ábyrgð á hendur félaginu vegna þessara aðgerða og áskilur sér rétt til að leita allra lögmætra leiða til að koma í veg fyrir eða takmarka það tjón sem þessar ólögmætu aðgerðir kynnu að valda kæmu þær til framkvæmda.“