Friðarsúlan í Viðey var tendruð á níunda tímanum í kvöld. Friðarsúlan var reist í Viðey til að heiðra minningu John Lennon en hann hefði orðið 75 ára í dag. Um 1500 manns voru í Viðey þegar súlan var tendruð.
Ekkja Lennon, Yoko Ono, bauð upp á fría siglingu yfir Sundið en dagskráin úti í Viðey hófst klukkan 17:30. Þar komu m.a. fram Ólöf Arnalds, Karlakór Reykjavíkur og hljómsveitin Friends 4 Ever.
Friðarsúlan er útilistaverk eftir Yoko Ono sem var reist í Viðey til að heiðra minningu John Lennon. Friðarsúlan er árlega tendruð á fæðingardegi Lennon 9. október og lýsir til 8. desember sem er dánardagur Lennon. Samkvæmt tilkynningu frá borginni er listaverkið er tákn fyrir baráttu Ono og Lennon fyrir heimsfriði. Friðarsúlan, tekur á sig form óskabrunns en á hana eru grafin orðin „hugsa sér frið“ á 24 tungumálum en enska heitið er vísun í lagið „Imagine“ eftir John Lennon. Yoko Ono býður öllum gestum tendrunarinnar að skrifa óskir og hengja á óskatré í Viðeyjarstofu og Viðeyjarnausti og eftir tendrun í Listasafni Reykjavíkur og á Höfuðborgarstofu. Borist hafa fleiri en milljón óskir um frið í tengslum við IMAGINE PEACE og Friðarsúluna víðsvegar að úr heiminum.