Karl Axelsson, hæstaréttarlögmaður á LEX og dósent við lagadeild Háskóla Íslands, hefur verið skipaður dómari við Hæstarétt Íslands, en fram kemur í fréttatilkynningu frá LEX að Karl sé einn af reynslumestu lögmönnum lögmannsstofunnar og í hópi virtustu lögmanna landsins.
„Karl hefur sérhæft sig í eignar-, fasteigna- og auðlindarétti og hefur kennt laganemum eignarrétt við Háskóla Íslands síðastliðin 23 ár. Hann hefur flutt fjölda dómsmála, þar af mörg prófmál, fyrir Hæstarétti frá því hann hlaut málflutningsréttindi fyrir réttinum árið 1997. Þá hefur hann sinnt verjendastörfum í ýmsum erfiðum sakamálum. Karl var settur hæstaréttardómari frá 16. október 2014 til 30. júní 2015,“ segir ennfremur.
Sömuleiðis hafi Karl verið eftirsóttur ráðgjafi og sinnt bæði einstaklingum, félagasamtökum og hinu opinbera í störfum sínum hjá LEX. „Hann hefur setið í og leitt starf fjölmargra stjórnskipaðra nefnda, m.a. á sviði stefnumörkunar í auðlinda- og orkumálum og um starfsumhverfi fjölmiðla. Einnig hefur hann komið að gerð fjölmargra lagafrumvarpa á sínum sérsviðum, samið greinar um lögfræðileg málefni og flutt fjölda fyrirlestra, einkum á sviði eignarréttar.“
Karl er kvæntur Margréti Reynisdóttur og eiga þau tvær dætur. Karl sinnir meðal annars í tómstundum sínum skógrækt, stangveiði og málefnum Knattspyrnufélagsins Vals þar sem hann hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum.