Kennarar í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi (FVA) standa nú í deilum við skólameistara skólans, Ágústu Elínu Ingþórsdóttur, en hún hóf störf við skólann 1. janúar sl.
Samkvæmt upplýsingum blaðsins var eitt af hennar fyrstu verkum að skipta út aðstoðarskólameistara, eftir að hafa einnig sagt upp ræstingarkonum við skólann. Í haust var annar aðstoðarskólameistari ráðinn en nú hefur honum einnig verið sagt upp.
Reynir Þór Eyvindsson, formaður skólanefndar FVA, segir í Morgunblaðinu í dag, að nefndin hafi talið að mjög illa hafi verið staðið að ráðningu nýs skólameistara fyrir síðustu áramót. Nú hafa kennarar, eftir fund sín á milli, ákveðið að fara með málið til menntamálaráðuneytisins og bæjaryfirvalda, sem og skólanefndar, en að sögn Reynis er þetta í annað skiptið sem kennarar fara þá leið.