Starfsemi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er nú að færast í eðlilegt horf en í dag tilkynntu um sjötíu lögreglumenn þar veikindi og mættu ekki til starfa. Að sögn Jóhannesar Karls Þórissonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er kvöldvaktin sem mætti til starfa klukkan 19 fullmönnuð. Þar að auki er búið að opna lögreglustöðina á Grensásvegi að nýju en hún var lokuð í dag vegna manneklu. Að sögn Jóhannesar eru allar lögreglustöðvar á höfuðborgarsvæðinu nú opnar.
Eins og fram kom á mbl.is fyrr í kvöld mönnuðu yfirmenn lögreglubifreiðar og gengu í önnur störf til að sinna lágmarksöryggisgæslu á höfuðborgarsvæðinu. Dagurinn gekk án stóráfalla.
Eins og fram hefur komið, telur fjármálaráðuneytið að forföllin séu ólögmætar verkfallsaðgerðir lögreglumanna til að knýja á um bætt launakjör.