Fjarvistir lögreglumanna víða um land stefna öryggi borgaranna ekki í voða, að mati Haraldar Johannessen, ríkislögreglustjóra, sem telur stöðuna hins vegar alvarlega og bagalega. Hann treystir sér ekki til að segja til um hvort um samstilltar aðgerðir lögreglumanna sé að ræða.
Nokkur fjöldi lögreglumanna hefur tilkynnt forföll vegna veikinda í dag. Lögreglustöðin við Grensásveg í Reykjavík er meðal annars lokuð í dag vegna ástandsins. Fjármálaráðuneytið telur að forföllin séu ólögmætar verkfallsaðgerðir lögreglumanna til að knýja á um bætt launakjör.
Haraldur segist ekkert geta fullyrt um hvernig forföll lögreglumannanna séu tilkomin en ef raunin sé sú að forföllin séu í raun samstilltar aðgerðir til að knýja á um kjarabætur lögreglumanna segir hann það afar óheppilegt. Hann hefur ekki tölur um hversu margir séu fjarverandi í dag. Hins vegar sé ljóst að lögreglan muni sinna neyðarútköllum áfram enda sé það ekki þannig að allir lögreglumenn séu fjarverandi í dag.
„Það er mat embættis ríkislögreglustjóra að öryggi borgaranna sé ekki stefnt í voða þrátt fyrir það að lögreglumenn séu margir hverjir veikir í dag. Vonandi fer að sjást til lands hvað samninga ríkisins og Landssambands lögreglumanna varðar,“ segir ríkislögreglustjóri.
Næsti fundur samninganefndar ríkisins og lögreglumanna er boðaður á föstudag eftir viku.
Tuttugu og tveir sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra sem áttu að vera á námskeiði í dag boðuðu forföll í morgun en Haraldur segir að þrátt fyrir það sé sérsveitin á vakt og fullmönnuð.
Áform séu ekki um að kanna sérstaklega hvort lögreglumennirnir hafi í raun og veru verið veikir, að minnsta kosti ekki á vegum ríkislögreglustjóra. Haraldur segir það hins vegar vera ákvörðun hvers lögregluembættis fyrir sig. Hann geri ráð fyrir að lögreglumennirnir þurfi að skila inn vottorði í samræmi við reglur um veikindi starfsmanna.
Fjármálaráðuneytið taldi sig í gær hafa heimildir fyrir því að lögreglumenn ætluðu að boða sig veika nú í morgun og í nótt. Haraldur segist ekki geta svarað fyrir upplýsingar ráðuneytisins. Helgar og nætur séu þó vissulega mikill álagstími fyrir lögreglu. Lögreglumenn verði á vakt sem geti brugðist við jafnvel þó að aftur verði um fjarvistir að ræða í nótt.
Haraldur segir það segja sig sjálft að það dragi úr löggæslu þegar fækkar í mannskapnum. Hann geti hins vegar ekki sagt nákvæmlega til um hvaða verkefni sitji á hakanum í dag. Trúlega séu það þó mikið af frumkvæðisverkefnum og ýmis dagleg störf.