Um 70 lögreglumenn tilkynntu forföll

Lögreglumenn krefjast kjarabóta.
Lögreglumenn krefjast kjarabóta. mbl.is/Styrmir Kári

Á sjöunda tug lögreglumanna hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu mættu ekki til starfa í dag eftir að hafa tilkynnt veikindi. Samkvæmt upplýsingum mbl.is mönnuðu yfirmenn lögreglubifreiðar og gengu í önnur störf til að sinna lágmarksöryggisgæslu á höfuðborgarsvæðinu. Dagurinn gekk án stóráfalla. 

Lögreglustöðin við Grensásveg í Reykjavík var meðal annars lokuð í dag vegna ástandsins.

Eins og fram hefur komið, telur fjármálaráðuneytið að forföllin séu ólögmætar verkfallsaðgerðir lögreglumanna til að knýja á um bætt  launakjör.

Ríkislögreglustjóri sagði í samtali við mbl.is, að það væri mat embættisins að öryggi borgaranna væri ekki stefnt í voða þrátt fyrir forföll lögreglumannanna.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu í morgun vegna málsins:

„Sú óvenjulega staða kom upp hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í morgun að margir lögreglumenn hjá embættinu boðuðu forföll vegna veikinda.
Af þeirri ástæðu er viðbúið að ekki verði unnt að sinna öllum verkefnum sem koma á borð lögreglu í dag, en þau sem teljast brýn og áríðandi verða vitaskuld sett í forgang eins og jafnan áður.

Lögreglan biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda, en biðlar jafnframt til fólks að sýna henni skilning og þolinmæði í dag.“

Snorri Magnús­son, formaður Lands­sam­bands lög­reglu­manna, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag, að félagið hefði ekki komið að skipu­lagn­ingu aðgerðanna. Ekki væri hægt að svara fyr­ir gjörðir ein­stakra fé­lags­manna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert