Útförum Siðmenntar úthýst

Krossar eru síður viðeigandi í ókristilegum athöfnum á við útfarir …
Krossar eru síður viðeigandi í ókristilegum athöfnum á við útfarir Siðmenntar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Eina opinbera húsnæðið sem lífsskoðunarfélaginu Siðmennt stendur til boða fyrir athafnir sínar verður lokað vegna viðhalds næstu tvo mánuði. Húsnæðið sem um ræðir er Fossvogskirkja, sem hefur verið lokuð frá 5. október, en félagið fékk einungis viku fyrirvara áður en til lokuninnar kom.

„Það átti að vera ein útför í þessari viku en henni hefur verið frestað fram á þriðjudag,“ segir Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Siðmenntar og bætir við að svo framarlega sem hann viti hafi þó ekki fundist ný staðsetning enn.

Samkvæmt samþykktum kirkjuþings er Siðmennt ekki heimilt að hafa veraldlegar athafnir í kirkjum. Fossvogskirkja er þar undanskilin og er eina kirkjan á landinu sem er skilgreind til nota fyrir öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög.

Rekast á veggi þjóðkirkjunnar

Bjarni segir ýmsa aðra möguleika fyrir hendi en kirkjur.

 „Við höfum bent á ýmis félagsheimili hér á höfuðborgarsvæðinu . Við vorum til dæmis með útför Helga Hóseassonar á sínum tíma og hún fór fram í einu slíku. Það má eiginlega vera með útför hvar sem er, þetta er ekkert bundið við kirkjur en hinsvegar eru hefðir í útförum gríðarlega sterkar.“

Hann segir Siðmennt ekki sækjast sérstaklega eftir því að framkvæma athafnir sínar í kirkjum. Það sé alfarið val aðstandenda hverju sinni og félagið setur sig ekki upp á móti því. Segir hann aðstandendur oft ímynda sér að það sé lítið mál að bóka kirkju þó svo að Siðmennt sjái um athöfnina og sækjast eftir því sökum hefðarinnar. Þegar á hólminn sé komið reki það sig á vegg.

„Því miður hefur fólk lent í töluverðum hremmingum þegar það uppgötvar að það megi nota hvaða kirkju sem er.“

Vilja hlutlaust opinbert rými

Siðmennt sér um allt frá fimm til tíu útfarir á ári. Segir Bjarni að þeim hafi fjölgað jafnt og þétt og að þeim muni fjölga enn frekar á komandi árum.

Í september sendi Siðmennt þingmönnum erindi um trúfrelsi og jafnrétti með lista þar sem meðal annars er hnykkt á mikilvægi þess að tryggja húsnæði fyrir athafnir óháð lífsskoðunum. Bjarni segir ekkert hlutlaust opinbert rými til staðar í dag fyrir slíkar athafnir enda sé stærðarinnar kross í Fossvogskirkju.

„Aðstandendur sem ég hef verið að þjónusta hafa gert verulegar athugasemdir við það. Ef þetta er húsnæði sem allir eiga að geta notað þá er svolítið sérstakt að þarna skuli samt sem áður vera risastór kross.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert