Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, gagnrýnir harðlega framgöngu Seðlabankans við rannsóknir á meintum gjaldeyrisbrotum. Sérstakur saksóknari felldi í byrjun september niður rannsókn á Samherja, sem Seðlabankinn kærði til embættisins í september 2013. Málið hófst með húsleit sem unnin var í samstarfi gjaldeyriseftirlits Seðlabankans og embættis sérstaks saksóknara hinn 27. mars 2012.
„Það er stjórnvalda að þekkja reglurnar. Dómstólar eiga að veita stjórnvöldum aðhald. Ég hef gagnrýnt að Seðlabankanum hefur verið leyft að fara fram með fullyrðingar fyrir dómstólum sem þeir hafa ekki þurft að rökstyðja eða sanna. Dómstólar hafa brugðist í þessum málum,“ segir hann.
„Varðandi Aserta-málið hef ég sagt lengi að það er nýtt Geirfinnsmál. Það er búið að draga þarna unga menn, taka af þeim vinnuna, hugsanlega rústa þeirra lífi, möguleika til starfa og svo framvegis. Það er búið að draga þessa menn í gegnum kerfið í samtals yfir 20 ár.
Málið byrjar með blaðamannafundi [29. janúar 2010] sem vart á sér fordæmi. Þetta er búið að ganga í allan þennan tíma. Og eins og þetta hafi ekki verið nóg halda ákæruvaldið og Seðlabankinn áfram að reyna að sakfella þá, eftir að búið er að fella niður flestar ákærurnar og sýkna af því sem eftir stóð af fjölskipuðum héraðsdómi. Ég spyr bara hverjir geta leyft sér þetta? Menn verða að átta sig á því hvað er búið að gera þessum mönnum og fjölskyldum þeirra. Þessir menn höfðu drauma og væntingar um lífið og menntuðu sig til að láta þessa drauma rætast. Hafandi horft á þetta mál og fylgst með því er þetta orðið fyrir mér nýtt Geirfinnsmál.“
Þorsteinn Már segir máli Samherja ekki lokið.
„Mannorð og mannréttindi verða ekki metin til fjár. Við munum ekki sækja fjárhagslegar bætur. Málinu er þó ekki lokið.“