Fjórir Íslendingar handteknir á Spáni

Kannabisplöntur. Mynd úr safni.
Kannabisplöntur. Mynd úr safni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Lögregla á Spáni hefur handtekið einn íslending og sjö hollendinga í bænum Molina de Segura í tengslum við umfangsmikla kannabisræktun. Í spænskum fjölmiðlum kemur fram að ræktunin hafi farið fram í háþróaðasta kannabisgróðurhúsi Evrópu og hefur það nú verið rifið niður. Starfsemi gróðurhússins var metin á um eina milljón evra eða um 142 milljónir íslenskra króna.

Eins og fyrr segir voru átta manns handteknir í tengslum við málið og samkvæmt grein spænska dagblaðsins La Opinión de Murcia tengjast mennirnir skipulagðri glæpastarfsemi sem snýst um að flytja kannabisefni til Hollands.

6000 kannabisplöntur fundust í gróðurhúsinu. Rannsókn málsins hófst þegar að yfirvöld voru látin vita af undarlegum frávikum í rafmagnslínum í bænum. Við rannsóknina fann lögregla stóra vöruskemmu sem sýndist vera ekki í notkun. Í ljós kom að vöruskemman hafi ekki verið að greiða fyrir rafmagns- og vatnsnotkun en innihélt þrátt fyrir það umfangsmikla kannabisræktun.

Hollendingarnir sem voru handteknir eru á aldrinum 27 til 43 ára en Íslendingurinn er sagður 58 ára gamall.

Uppfært klukkan 12:41

Samkvæmt frétt spænska fjölmiðilsins 20 minutos voru þrír Íslendingar, sem taldir eru vitorðsmenn hins fyrrnefnda, hanteknir á Spáni á leið sinni úr landinu. Tveir voru handteknir þegar þeir reyndu að komast úr landinu akandi en sá þriðji var handtekinn á flugvelli í Alicante á leið til Íslands.

Að sögn Urðar Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, er málið ekki komið á þeirra borð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert