Sakar sveitarstjórnir um ábyrgðarleysi

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Það hefði átt að vera ljóst áður en kjarasamningar voru gerðir að sveitarfélögin hefðu ekki efni á að greiða eftir þeim og því var það algert ábyrgðarleysi af hálfu sveitarstjórnarmanna að semja um launahækkanirnar. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA).

Í pistli sem birtist á vefsíðu SA er sagt frá orðum framkvæmdastjórans í viðtali á Bylgjunni í morgun. Sveitarfélögin kvarti nú undan því að þau hafi ekki efni á kjarasamningum sem þau hafi gert og kalli nú eftir auknum skatttekjum frá ríkinu til að fjármagna þá. Það hafi verið algert ábyrgðarleysi að semja um launahækkanir sem vitað hafi verið fyrirfram að sveitarfélögin hefðu ekki efni á.

„Mér finnst mjög furðulegt að sveitastjórnarmenn hagi sér með þessum hætti og komi svo og heimti auknar skatttekjur til að borga fyrir ábyrgðarleysið,“ sagði Þorsteinn.

Viðsemjendur á vinnumarkaði beri einnig mikla ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika og mikilvægt sé þeir axli hana, að mati Þorsteins.

„Nú erum við að fara inn í hefðbundna íslenska ofþenslu,“ sagði Þorsteinn sem hélt því fram að afleiðingarnar muni verða alvarlegar fyrir bæði heimili og fyrirtæki.

Ef launaþróun á almennum og opinberum vinnumarkaði sé borin saman frá ársbyrjun 2013 hafi laun hækkað mun meira á opinbera markaðnum.

„Þessi yfirsnúningur á vinnumarkaði hefur verið knúinn áfram af endurteknum verkfallsaðgerðum á opinbera vinnumarkaðnum,“ sagði framkvæmdastjórinn.

Pistillinn á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert